100 ára afmæli Líflands

Á morgun, laugardaginn 24. júní, ætlar Lífland að fagna 100 ára afmæli í öllum verslunum sínum milli klukkan 12 og 15, þar á meðal í versluninni á Blönduósi. Í boði verða grillaðar pylsur, gos og afmæliskaka og einnig verður skemmtun fyrir börnin. Þá verður boðið upp á spennandi afmælistilboð, m.a. á hnökkum, reiðfatnaði og reiðtygjum svo eitthvað sé nefnt. Vonast er til  að sem flestir láti sjá sig og eigi skemmtilega stund saman. 
 

Lífland tók til starfa árið 1917 undir nafninu Mjólkurfélag Reykjavíkur en það var stofnað af bændum í Reykjavík og nærsveitum til að annast vinnslu og dreifingu mjólkur í Reykjavík. Jafnframt því hóf félagið að útvega bændum rekstrarvörur til búskapar. Félagið byggði mjólkurstöð sem upphaflega var til húsa við Lindargötu í Reykjavík. Árið 2005 var nafni fyrirtækisins breytt í Lífland og vísar nafnið til þess að starfsemi fyrirtækisins tengist nú mannlífiog dýralífi í landinu á mun breiðara sviði en í árdaga. 

Verslanir Líflands eru nú fimm talsins og eru í Reykjavík, Borgarnesi, Blönduósi, Akureyri og á Hvolsvelli. Lífland rekur tvær verksmiðjur, fóðurverksmiðju á Grundartanga og í Korngörðum í Reykjavík er eina hveitimylla landsins en þar framleiðir Lífland Kornax hveiti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir