Brúðuleikhúsið Handbendi í leikferð um Ísland og Pólland

Úr sýningunni Engi. Mynd: Helen Murray.
Úr sýningunni Engi. Mynd: Helen Murray.

Brúðuleikhúsið Handbendi á Hvammstanga leggur á næstu dögum upp í leikferð um Ísland og Pólland með leiksýninguna Engi sem áður hefur verið sýnt víða um Bretland auk nokkurra staða á Íslandi. Að sögn Gretu Clough, stjórnanda leikhússins, fjallar sýningin um dýrin sem áttu eitt sinn heima á enginu og eru þau endurvakin til lífsins með handgerðum brúðum úr efnivið sem til fellur þar. Greta segir sýninguna hafa verið hugsaða fyrir börn á aldrinum þriggja til átta ára en hún höfði þó til mun breiðari hóps. „Það hafa komið kornabörn á sýningar sem hafa haldið athyglinni allan tímann og táningar sem hafa líka orðið hugfangnir. Fullorðnir njóta sýningarinnar líka þannig að mínu viti er hún fyrir alla aldurshópa.” 

Síðan Handbendi var stofnað árið 2016 hefur mörgum verkefnum verið hleypt af stokkunum og á síðasta ári voru sýndar yfir 150 sýningar í fimm löndum. „Við bjuggum til tvær nýjar sýningar, Tröll og Búkollu,” segir Greta „og unnum með sjö erlendum listamönnum hér á Hvammstanga. Það sem af er ári hefur Búkolla farið leikferð um Norðurland og Austfirði á vegum verkefnisins List fyrir alla en þá fer ég með sýninguna og brúðugerðarsmiðju inn í grunnskólana.  Tröll voru sýnd á Íslandi og víða í Bretlandi, meðal annars var uppselt á allar sýningar okkar í London Southbank Centre og þar fengum við góða leikdóma. Ég fékk líka tækifæri til að kenna erlendis á listahátíðum og við leiklistarskóla í Evrópu ásamt því að heimsækja bæði grunn- og leikskóla á Íslandi. Það er ánægjulegt að fjallað hefur verið um Handbendi í doktorsritgerðum og ýmsu efni um brúðuleik, list, og menningarlega endurreisn bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.”

Úr sýningunni Engi. Mynd: Helen Murray.

Að sögn Gretu er nú verið að þróa nýja sýningu sem ber nafnið Form og er hugsuð fyrir börn á aldrinum 0 – 18 mánaða og er unnin með leikurum og dönsurum hér á Íslandi. Auk leikferðarinnar með Engi stendur til leikferð með hina vinsælu sýningu, Kúrudag, til Póllands, Króatíu, Úkraínu, og Makedóníu svo það er margt spennandi að gerast. Þá er gaman að geta þess að Handbendi var tilnefnt til verðlauna á hátíðinni Sögur og einnig til Grímuverðlauna auk þess sem Greta var líka tilnefnd sem leikkona ársins á hátíðinni Sögur. Þá var leikhúsið tilnefnt til barnamenningarverðlauna í Bretlandi. 

Úr sýningunni Engi. Mynd: Helen Murray.

Greta tók einnig sæti í stjórn Assitej Íslands, Íslandsdeild heimssamtaka barnaleikhúss og barnamenningar í ár. „ASSITEJ helgar sig listrænum, menningarlegum og menntunarlegum réttindum barna um heim allan, og berst fyrir réttindum allra barna, burtséð frá þjóðerni, menningu, hæfni, kyni, kynhneigð, uppruna eða trúarbrögðum. ASSITEJ stefnir fólki saman svo það geti deilt þekkingu og færni innan barna- og unglingaleikhússgeirans með það að markmiði að dýpka skilning, þróa vinnubrögð, skapa ný tækifæri, og styrkja geirann hnattrænt. Þetta eru frábær samtök, og ég er stolt af því að vera þáttakandi í þeim," segir Greta.

Greta segir hópinn sem standi að Engi vera alþjóðlegan en hann skipa, auk hennar, Samuel Dutton og Cassie Newby sem bæði eiga heima í Bretlandi og hafa oft unnið með Gretu.  Þá fer Sigurvald Ívar Helgasson einnig með í leikferðina sem tæknimaður og tónlistin er frumsamin af vinsælum breskum þjóðlagasöngvara, Paul Mosely, en hann semur tónlistina fyrir flestar sýningar Gretu. 

Fyrirhugaðar sýningar á Engi eru á Hvammstanga 21. maí, í Szczecin í Póllandi 22. – 25. maí, í Tjarnarbíói í Reykjavík 26. maí, í Frystiklefanum á Rifi 27. maí, á Dalvík 29. maí, í Bifröst á Sauðárkróki 2. júní, í Samkomuhúsinu á Akureyri þann 3. júní og loks í Lomza í Póllandi 5.-10. júní.  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir