Færri umferðaróhöpp en fleiri hraðakstursbrot

Margir ökumenn stíga þungt á bensínfótinn á Norðurlandi vestra. Mynd:Facebooksíða Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Margir ökumenn stíga þungt á bensínfótinn á Norðurlandi vestra. Mynd:Facebooksíða Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.

Mikil fjölgun hefur orðið á hraðakstursbrotum í umdæmi Lögreglunnar á Norðurlandi vestra það sem ef er ári. Þannig voru útgefnar kærur það sem af er þessu ári orðnar 3.689 talsins sl. fimmtudag samanborið við 1.417 á sama tíma í fyrra og 602 árið 2016. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu á föstudag þar sem rætt er við Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Stefán Vagn segir í samtalinu að meirihluti þeirra sem stöðvaðir eru séu útlendingar sem ekki geri sér grein fyrir því hverjar sektirnar séu en Íslendingar fari sér hægar en áður eftir að sektir voru hækkaðar síðastliðið vor. Stefán segir að marviss fræðsla fyrir erlenda ökumenn um það hvaða reglur gilda í umferðinni hér á landi sé nauðsynleg.

Umferðareftirlit hefur alltaf verið áherslumál hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra og viljað brenna við á þessum slóðum sé farið hratt yfir og umferðaróhöppin því mörg. Umferðarslysin á svæðinu öllu eru nú orðin 55 en voru 63 á sama tíma í fyrra og er það um 14% fækkun. Árið 2016 voru sambærilegar tölur 82 slys og fækkunin síðan þá miðað við daginn í dag 33% að því er segir í Morgunblaðinu.

Stefán segir að nú sé embættið með tvo menn sem eingöngu sinni umferðaeftirliti á varðsvæðinu og séu þeir gerðir út frá Sauðárkróki en einnig taki almenna löggæslan þátt í eftirlitinu. „Auðvitað má nálgast tölur á ýmsa vegu og fá alls konar niðurstöður. En færri slys eru auðvitað sú niðurstaða sem mestu skiptir fyrir alla,“ segir Stefán Vagn í Morgunblaðinu á föstudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir