Jogvan Hansen og Pálmi Sigurhjartar á ferðalagi á Norðurlandi vestra

Um þessar mundir eru tónlistarmennirnir Jogvan Hansen og Pálmi Sigurhjartar á ferðalagi og koma við á Hvammstanga, Skagaströnd og Sauðárkrók. „Við byrjuðum á Akranesi, Grundarfirði, Búðardal, Hólmavík, Bíldudal, Þingeyri og núna í kvöld erum við á Bolungarvík,“ segir Jogvan.

Hann segir að vel hafi gengið hingað til. „Allt hefur það gengið með prýði. Einnig höfum við spilað fyrir eldri borgara á elliheimilum alls staðar sem elliheimili hefur verið og hafa þeir verið rosalega glaðir með það.“

Leiðir Jogvan Hansen og Pálma Sigurhjartarsonar hafa legið víða saman má segja frá árinu 2010 þegar þeir tveir ásamt Sigurjóni Brink settu saman dagskrá fyrir Hótel Sögu um jólin það ár. Þegar Sigurjón féll frá snemma árs 2011 tók Jogvan við söngvarastöðu Sjonna í hljómsveitinni ,,Rokk" sem hafði starfað í nokkurn tíma við góðan orðstír. Síðan hafa Jogvan og Pálmi starfað mikið saman sem dúó ásamt því að leika og syngja með fleiri listamönnum innanborðs. Vorið 2015 stýrði Pálmi tónleikum sem voru haldnir vegna 90 ára afmælis  Jóns Sigurðssonar (1925-1992) Jón í Bankanum, og voru þessir tónleikar haldnir í Salnum í Kópavogi þar sem helstu lög og textar Jóns voru flutt ásamt hljómveit og söngvurum. Pálmi var þar tónlistar- og hljómsveitarstjóri og Jogvan einn af aðalsöngvurum. Upp úr þessu spratt sú hugmynd  hjá þeim félögum að gaman væri að fara með þetta prógramm  lög og texta Jóns í bankanum um landið og deila þessum þjóðargersemum með fólki allstaðar á landinu.

Og nú er sú hugmynd orðin að veruleika en fyrsti hluti tónleikaferðarinnar ,,Ég er kominn heim“ hófst þann 13. maí og stendur til 22. maí þegar sungið verður á Sauðárkróki.

Tónleikarnir á Hvammstanga verða í veitingahúsinu Sjávarborg annað kvöld 20. maí og hefjast klukkan 21:30.

Mánudaginn, annan hvítasunnudag, verða þeir félagar í Hólaneskirkju á Skagaströnd og hefjast tónleikarnir kl. 20 og svo enda þeir tónleikaferðina í Sauðakrókskirkju á þriðjudaginn 22. maí og hefjast þeir tónleikar einnig klukkan 20.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir