Kuldi í kortunum

Enn er mikill snjór til fjalla og áfram er spáð kulda. Mynd:FE
Enn er mikill snjór til fjalla og áfram er spáð kulda. Mynd:FE

Nú fer í hönd sú helgi sem oft er talað um sem fyrstu ferðahelgi sumarsins. Þrátt fyrir að með breyttum tímum séu flestar helgar orðnar miklar ferðahelgar eru óneitanlega fleiri sem hugsa sér til hreyfings þær helgar sem eru lengri en gengur og gerist. Þá er ekki úr vegi að minna fólk á að fara varlega í umferðinni og að best er heilum vagni heim að aka.

Veðurguðirnir eru reyndar ekki alveg á því að það sé komið sumar. Spáin næstu daga hljóðar upp á suðvestan 5-13 m/s og skúri eða él en bjart að mestu norðaustan- og austanlands. Hiti verður 3 til 12 stig, mildast austast. Í fyrramálið á að ganga í suðaustan 10-18 m/s með rigningu en allt að 23 suðvestanlands en þurrt að mestu á Norðurlandi. Snýst í sunnan og suðvestan 10-18 seinnipartinn á morgun með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðan- og austanlands annað kvöld. Hiti 5 til 10 stig.

Sé litið til spárinnar fyrir Norðurland vestra segir svo á vef Veðurstofunnar: „Suðvestan 8-13 m/s og stöku skúrir eða slyddué. Vaxandi austlæg átt í fyrramálið, 10-18 og rigningu á köflum eftir hádegi á morgun. Snýst í sunnan 10-15 og léttir til með stöku skúrum eða slydduéljum undir kvöld á morgun. Hiti 5 til 10 stig, en 1 til 5 að næturlagi.“

Á sunnudag er gert ráð fyrir sunnan- og suðvestanátt, víða 13-18 m/s með rigningu eða skúrum en snjókomu til fjalla. Þurrt verður norðaustanlands. Hiti 3 til 11 stig, mildast á norðausturhorninu. 

Á mánudag (annan í hvítasunnu) verður suðvestan átt, 8-13 m/s og skúrir eða slydduél en léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti breytist lítið. 

Það virðist því gáfulegast fyrir þá sem hyggja á ferðalög að að skella trefli um hálsinn og húfu á höfuðið og jafnvel að hafa meðferðis heitt kakó á brúsa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir