Nemendur fá val um endurtöku könnunarprófa

Mynd: Pexels.com.
Mynd: Pexels.com.

Nemendum í 9. bekk gefst kostur á að þreyta að nýju könnunarpróf í ensku og íslensku, en margir þeirra tóku próf við óviðunandi aðstæður í liðinni viku. Þátttaka í könnunarprófunum verður valkvæð, samkvæmt ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Stjórnendur í hverjum skóla ákveða hvort þeir leggja prófin fyrir nemendur sína í vor eða haust.

Þeir nemendur sem luku prófunum í liðinni viku fá afhentar niðurstöður úr þeim. Öllum býðst svo að þreyta sambærileg könnunarpróf að nýju, enda er það lögbundin skylda menntamálayfirvalda að bjóða nemendum mat á námsstöðu sinni. Þeir nemendur sem kjósa, að höfðu samráði við forráðamenn, að taka ekki umrædd próf aftur verða leystir undan prófskyldu. Þessi leið var valin þar sem hún er talin sanngjörnust fyrir nemendur.

Grunnskólalög heimila undanþágu frá prófskyldu samræmdra prófa, ef gildar ástæður eru til staðar. Þær eru tilgreindar í reglugerð, sem nauðsynlegt er að breyta svo þær aðstæður sem nú eru uppi teljist gildar. Vinna við reglugerðarbreytinguna er þegar hafin.

Ákvörðun ráðherra felur í sér að nemendum er tryggð endurgjöf um hæfni sína á tilteknum sviðum. Rétt er þó að hafa í huga að námsmat skóla gefur einnig góða mynd af námsstöðu nemenda. Ekki verða gefnar út svokallaðar raðeinkunnir, ekki verða reiknuð meðaltöl fyrir einstaka skóla eða landssvæði og samanburður milli skóla verður ekki mögulegur vegna annmarka á framkvæmd prófanna.

 „Það var mikilvægt að eyða óvissu um framhald þessa máls. Skoðanir nemenda, foreldra, kennara og skólastjórnenda eru ólíkar og ég hef t.a.m. fengið fjölmörg bréf frá fólki sem ýmist vill fella prófin niður, leggja þau fyrir alla nemendur að nýju eða fara bil beggja. Það er ljóst að engin ein niðurstaða sættir öll sjónarmið í málinu en það er mikilvægt að ákvörðun ráðuneytisins sé í fullu samræmi við lög og sanngjörn gagnvart nemendum. Réttur nemenda verður ekki tekinn af þeim og ég er vongóð um að sátt geti skapast um þessa leið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir