Vel heppnað námskeið fyrir ferðamálafélaga

Frá námskeiðinu. Mynd: Facebooksíðan Umræðuhópur áhugafólks um ferðaþjónustu í A-Hún.
Frá námskeiðinu. Mynd: Facebooksíðan Umræðuhópur áhugafólks um ferðaþjónustu í A-Hún.

Síðastliðinn þriðjudag var félagsmönnum í Ferðamálafélagi Austur-Húnavatnssýslu og Félagi ferðaþjónustunnar í Skagafirði boðið á námskeið í Húnaveri þar sem fjallað var um þjóðerni og þjónustu. Á námskeiðinu fjallaði Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur um þjónustu, ólíka menningarheima og hvernig best sé að uppfylla þarfir ólíkra gesta. Margrét hefur sérhæft sig í námskeiðahaldi um þjónustu og hefur meðal annars gefið út fimm bækur um þjónustu og sex íslensk þjónustumyndbönd. Námskeiðið skipulagði Þórdís Rúnarsdóttir, ferðamálafulltrúi Austur-Húnavatnssýslu ásamt Margréti Reynisdóttur.


Námskeiðið var félagsmönnum að kostnaðarlausu og fengu þeir einnig bókina Þjóðerni og þjónusta - Góð ráð í samskiptum við erlenda gesti, að gjöf. Námskeiðið fór bæði fram í fyrirlestraformi þar sem Margrét fór yfir fjölbreytileika fólks af mismunandi þjóðerni með áherslu á þær þjóðir sem helst sækja svæðið heim; Kínverja, Bandaríkjamenn, Breta, Þjóðverja og Frakka. Einnig var unnin hópavinna þar sem félagsmenn urðu margs vísari eins og til dæmis hvað sami hluturinn, svo sem ákveðnar handahreyfingar geta haft ólíka merkingu hjá  mismundandi þjóðum.

Voru gestir verulega sáttir með daginn þar sem þeir öðluðust dýpri skilning á þörfum ólíkra gesta ásamt ýmsu öðru sem mun án efa nýtast þeim í framtíðinni að því er segir á Facebooksíðu Umræðuhóps áhugafólks um ferðaþjónustu í A-Hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir