Á erfitt með að segja nei

Ég er nú ekki vanur að segja nei, sem reyndar kemur manni oft í þá stöðu sem ég er í þegar ég skrifa þennan pistil, um það bil tólf tímum eftir að ég átti að skila honum. Þegar Guðmundur talaði við mig um að skora á mig fannst mér það nú lítið mál enda var heillangur tími þangað til ég átti að skila honum, en eins og oft gerist þá var þessi langi tími bara alltof lengi að líða.

Nýlega fagnaði ég því að það eru fjögur ár síðan ég hringdi í Reimar í Kaupfélaginu og forvitnaðist hvort hann vantaði ekki starfskraft, en þá var ég atvinnulaus. Fyrst var planið nú bara að vinna fram á haust en eitthvað hefur það nú ílengst, enda heillaðist ég fljótt af staðnum og ári síðar keypti ég hús og sé fram á að búa hér lengi.

Það að vinna í Kaupfélaginu gerði það að verkum að maður kynntist mikið af fólkinu hér, sem maður hefði sennilega ekki gert á mörgum öðrum vinnustöðum og mæli ég því hiklaust með því fyrir nýbúa í sveitafélaginu að vinna þar.

Eins og ég sagði í upphafi háir það mér að ég á erfitt með að segja nei, sem hefur leitt til þess að á þessum fjórum árum sem ég hef verið hér hef ég setið í nefndum og ráðum í þrjú þeirra. Þetta er nú eitthvað sem maður bjóst ekki við þegar maður mætti fyrsta daginn í vinnuna hér um árið. Þegar ég lít til baka þá er ég nú ekki viss um að fyrir tíu árum, þegar ég ætlaði nú að verða rafvirki hefði ég getað spáð fyrir um að búa í Húnaþingi vestra, því þá vissi ekki hvar það væri, en hér vil ég búa.

Ég skora á Elísabetu Sif Gísladóttir að koma með næsta pistil úr Húnaþingi.

Áður birst í 16. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir