Að leita langt yfir skammt

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur
Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Á Norðurlandi vestra hafa þó nokkrir forystumenn í sveitarstjórnum lagt í miklar langferðir, þeir hafa farið alla leið til Kína, til þess að biðla til þarlendra um að koma upp iðjuveri við Skagaströnd. Auðvitað er rétt að skoða alla möguleika til atvinnusköpunar, en þá er nánast kjánalegt að rýna ekki í nærtækasta kostinn áður en heimdraganum er hleypt svo langar leiðir.

Nærtækasti kosturinn er auðvitað sá að auka þorskveiðar. Einungis með því að auka veiðar svo að árlegur þorskafli yrði það sem aflinn var hve minnstur á árunum áður en kvótakerfið var tekið upp væri aukningin svo mikil miðað við núverandi afla að hægt væri að leyfa algerlega frjálsar veiðar hjá öllum smábátum landsins á grunnslóðinni.

Einkennilega fáir sveitarstjórnarmenn ljá máls á því að skoða möguleikann á auknu frelsi smábáta þrátt fyrir að öll rök hnígi í þá átt. Smábátaveiðin er atvinnuskapandi og ekki er nokkur lifandi leið að stunda eitthvað sem kallast ofveiði með krókum. Sama fálætið á við um núverandi þingmenn Norðvesturkjördæmisins og sér í lagi 1. þingmann svæðisins, Gunnar Braga Sveinsson, sem þreytist seint á að tala um hagkvæmni kvótakerfisins þrátt fyrir að kerfið skili færri þorskum á land en fyrir daga þess. Ekki virðist það heldur hleypa þingmönnum kapp í kinn að kerfið hafi höggvið stór skörð í sjávarbyggðirnar.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa ekki einungis fækkað opinberum störfum á Norðurlandi vestra, heldur hafa þeir hert atvinnuhöftin í sjávarútvegi í stað þess að auka frelsið. Þeir hafa sett úthafsrækjuna í kvóta með tilheyrandi aflasamdrætti. Nýjasta tiltækið hjá ríkisstjórninni var að skerða byggðakvótann í Skagafirði. Skýringin sem stjórnvöld gáfu var meðal annars sú að á Sauðárkróki væri öflug rækjuvinnsla! Þau rök eru afar furðuleg þar sem vinnslan byggir fyrst og fremst á innfluttu hráefni sem aflað er á hafsvæðum langt frá Íslandsströndum.

Stjórnmálasamtökin Dögun hafa skýra stefnu í sjávarútvegsmálum svo sem sjá má á heimasíðunni xdogun.is. Með stefnunni væri hagur sjómanna stórbættur því að ávallt yrði miðað við sanngjarnt markaðsverð í uppgjöri við áhafnir.

Í stað þess að halda áfram með stagbætta og gjörspillta byggðakvóta yrði aukið frelsi í greininni með því að handfæraveiðar yrðu gefnar frjálsar. Úthlutun byggðakvótans hefur frá upphafi verið handahófskennd og spillt, meðal annars varð fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í þorpi í Norðvesturkjördæmi uppvís að því að leigja út byggðakvóta fyrir vel á annað hundrað milljónir króna. Þessari óstjórn verður að linna og skynsamlegasta leiðin til þess er að auka frelsi og jafnræði í sjávarútvegi. Það er tímabært að fá svar við spurningunni: Hvers vegna í ósköpunum leggja svo fáir kjörnir fulltrúar á Norðurlandi vestra vinnu í að tryggja atvinnuöryggi og frelsi smábátasjómanna? 

Kjörnir fulltrúar ættu að sjá skynsemina í að álykta um og leggja þunga áherslu á frelsi til handfæraveiða áður en þeir flandrast út og suður til Kína og Úkraínu.

Sigurjón Þórðarson, líffræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir