Að segja eitt og gera allt annað

Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir Skagafjarðarlista
Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir Skagafjarðarlista

Á síðustu árum hefur Framsóknarflokkurinn gefið hástemmd loforð um veigamiklar úrbætur í húsnæðismálum.  Eygló Harðardóttir velferðarráðherra hefur gengið þar fremst og lofað m.a. afnámi verðtryggingar, lækkun byggingakostnaðar um 10%, bæta stöðu ungs fólks og leigjenda, auk þess að efla hlutverk Íbúðalánasjóðs.

Þrátt fyrir að þrjú ár séu liðin frá því ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tók við völdum, þá bólar lítið á raunverulegum aðgerðum.  Vissulega, þá voru fjögur frumvörp lögð alþingi  og það veigamesta um almennar félagslegar íbúðir, en áhrifa þess fer fyrst að gæta eftir nokkur ár og mun fyrst og fremst ná til tekjulægsta hóps samfélagsins.  Öðrum hópum sem búa við þrönga stöðu m.a. fólk með meðaltekjur sem fór illa út úr hruninu og ungt fólk sem nýkomið er úr skóla með þokkalegar tekjur og lítið eigið fé, er úthýst á almennan leigumarkað. 

Velferðarráðherra hefur nú gert stöðu þeirra sem þurfa að leita á náðir almenna markaðarins mun verri með því að koma megninu af eignasafni Íbúðalánasjóðs í hendurnar á félögum á borð við Heimavelli og Gamma.

Smá jafnt sem stór loforð velferðarráðherra virðast vera algerlega innihaldslaus.  Skömmu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var aðstoðarmaður velferðarráðherra sendur í leiðangur norður á Sauðárkrók til þess að lofa fjölgun starfa hjá útibúi Íbúðalánasjóðs norðan heiða.

Nú að tveimur árum liðnum er rétt að skoða efndirnar en þær eru að sjóðurinn hefur nýlega boðað áframhaldandi fækkun starfa á Sauðárkróki þannig að þeim loknum þá hefur ráðherra tekist að fækka störfum um hátt í 45% á Sauðárkróki.

Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir Skagafjarðarlista

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir