Að vera barn

Síðastliðin ár hef ég verið svo heppin að hafa fengið tækifæri til þess að vinna með börnum á fjölbreyttum vettvangi. Ég hef þjálfað börn á aldrinum 3-15 ára í íshokkí, séð um styrktarþjálfun hjá sama aldri, auk þess hef ég tekið að mér að þjálfa fötluð börn í sundi. Í dag er ég í fullu starfi sem íþróttafræðingur á leikskólanum Holtakot á Álftanesi. Þar sé ég um íþróttir og sundkennslu nemenda. Þessi fjölbreytilegi starfsvettvangur hefur oft fengið mig til að leita svara við einni spurningu; „Hvað er að vera barn?“

Barn er ungur einstaklingur sem mótast af samfélaginu og félagslegum aðstæðum. Barn er upp á foreldra eða forráðamenn sína komið. Tækifæri sem börn fá skapast og standa saman að stórum hluta af tekjum og tækifærum foreldra.

Fá öll börn tækifæri til þess að vera barn?

Nei, því miður ekki. Í nútíma íslensku samfélagi er það því miður staðreynd að litlar fjárhæðir eru settar í íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Þetta veldur því að foreldrar verða að leggja út, úr eigin vasa fyrir stórum hluta af tómstundum barnanna sinna. Fyrir marga getur þetta reynst erfitt.

Að mínu mati eru börn sú stétt samfélagsins sem líður hvað mest fyrir stéttarskiptingu kapítalismans.

Börn eru samt sem áður framtíð okkar. Börnin sem þurfa að líða fyrir stéttarskiptingu samfélagsins eru þau sem munu hafa mikil áhrif á líf okkar, fullorðna fólksins, eftir fáein ár. Þetta er fólkið sem kemur til með að stýra samfélaginu okkar. Samfélaginu sem við munum búa í þegar við verðum eldriborgarar.

Grunnhyggjan í samfélaginu er svo mikil að langtíma markmið á borð við forvarnargildi verða undir. Það er engu líkara en að peningar skipti meira máli en börnin. 

Ég hlakka til að fylgjast með þróun þessara mála á landsvísu. Ég vona innilega og óska þess innst inni að öll börn fái að vera börn á jafningjagrundvelli og vil helst að það hafi gerst í gær. Ég er þakklát fyrir inngrip sveitafélaga með tómstundarstyrkjum en ég vil sjá aukna þátttöku ríkisins í þessum málum. Börn eru framtíð landsins.

Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir brottfluttur Blönduósingur

 

Guðlaug skorar á pabba sinn, Þorstein Kristófer Jónsson að koma með næsta pistil.

 

Áður birst í 43. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir