Af ljósakrossum í Sauðárkrókskirkjugarði

Kirkjugarðurinn á Sauðárkróki. Mynd: KSE
Kirkjugarðurinn á Sauðárkróki. Mynd: KSE

Á aðventunni er góður og fallegur siður að tendra ljós á leiðum ástvina og er það hjá mörgum mikilvæg hefð í aðdraganda jólahátíðarinnar. Snemma í haust tók sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju þá ákvörðun að fela Kiwanisklúbbnum Drangey að annast uppsetningu og bera ábyrgð á lýsingu í kirkjugarðinum á Nöfunum. Fyrir því voru nokkrar ástæður sem rétt er gera grein fyrir.

Undanfarin misseri hefur verið ráðist í miklar framkvæmdir í garðinum sem hafa kostað töluverð fjárútlát. Því hefur garðurinn ekki haft bolmagn til að hafa fastan starfsmann og leitað hefur verið til verktaka með þau verk sem þarf að vinna. Til þess að tryggja að allir Króksarar nær og fjær geti fengið ljós á leiði sinna nánustu var ákveðið að leita til félagasamtaka um að setja upp ljósakrossa og aðstoða fólk eftir þörfum. Þessi háttur er hafður víða um land, t.d sér björgunarsveitin um garðinn á Siglufirði og skátar hafa í áratugi séð um lýsingu í Akureyrarkirkjugarði.

Það er gleðiefni að Kiwanisklúbburinn hefur sinnt þessum störfum af alúð og garðurinn er bæði þeim og okkur öllum til sóma. Nokkrum hefur vaxið í augum að gjald, 4000 krónur, er tekið fyrir hvern kross, hvort sem hann er í geymslu hjá garðinum og settur upp af umsjónarmönnum eða hann geymdur annarsstaðar og fólk setur upp sjálft. Þetta er réttilega mikil hækkun frá fyrra ári, sem þá var þúsund krónur og átti að standa straum af rafmagnskostnaði. Samkvæmt óopinberri verðkönnun sóknarnefndar er á flestum stöðum tekið hærra gjald fyrir sömu þjónustu og meira að segja töluvert hærra. Kiwanismenn vinna sjálfboðna vinnu og þeir hafa í áraraðir styrkt hin ýmsu verkefni í heimabyggð og munu án efa halda því áfram. Þannig mun gjaldið fyrir ljósið skila sér aftur til samfélagsins og renna til góðra málefna.

Megi aðventan verða áfram mild og góð og við öll eiga gleðileg jól.

Sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir