Afmælisgjöfin

Þetta byrjaði allt með afmælisveislu. Þetta var svosem ekki nein afbrigðilega sérstök afmælisveisla. Unnustinn átti 27 ára afmæli og var ákveðið að bjóða nokkrum vel völdum í smá öl og snakk yfir sjónvarpinu .... því jú, afmælisgleðin var haldin á hátíðisdeginum 13. maí og yrði þá öll þjóðin að horfa á Eurovision, þar á meðal við og gestir okkar.

Ég og unnustinn höfðum farið og keypt gott magn af öli sem við áætluðum að myndi duga kvöldið, margar gerðir af snakki og ídýfu og síðast en ekki síst nokkrar gosflöskur, svo að fólk gæti nú blandað sér sterkt ef það skyldi ekki vilja ölið. En allt var orðið klárt, íbúðin hrein og fín, veitingar komnar á borð, við vel greidd og klædd og biðum við bara eftir að fólk myndi mæta.

Og þá mætti fyrsti gestur, hann var vel klæddur, vel lyktandi og yfirhöfuð vel til hafður. En þessi gestur mætti þó ekki einungis með góða skapið, ónei...hann mætti með afmælisgjöf. Auðvitað, hugsar þú ef til vill með þér, auðvitað gefur gesturinn afmælisbarninu afmælisgjöf, jújú kannski, en gjöfin var gullfiskur. GULLFISKUR! Lifandi, spriklandi, glansandi gullfiskur í poka.

Þetta veitti mér, því miður, ekki gleði. Í sannleika sagt þá varð ég bara helvíti pirruð og fúl útí þennan gest. Það að hafa gefið unnustanum gullfisk þýddi einungis eitt, vesen.

Til bráðabirgða þurftum við að geyma grey fiskinn í vatnskönnu, því ekki áttum við búr handa greyinu og ekki áttum við fiskafóður svo að fiskurinn þurfti bara að gjöra svo vel að lifa næstu daga af, á meðan leitinni að fiskabúri og fiskafóðri stóð yfir.

Leitin bar árangur og innan fárra daga vorum við komin með búr, dælu, og allt sem fiskahaldi fylgir og auðvitað það sem skipti fiskinn kannski mestu máli, fiskafóður. Ég sá um að koma fiskinum vel fyrir á nýja heimilinu sínu, og tók ég því verkefni mjög alvarlega. Ég var meira að segja farin að nota google í að lesa mér til um fiskahald og ég var bara fljótlega komin með dellu fyrir fiskum.

Ég áttaði mig líka fljótt á því að fiskurinn var jú bara einn og sennilegast einmana. Ég fann til með grey fiskinum, ég vorkenndi honum að þurfa að synda um í nýja búrinu einn og yfirgefinn, svo það var bara eitt til ráða, fiskurinn þurfti að fá vini.

Í dag á afmælisgjafargullfiskurinn tvo vini og hefur það gott. Og það sem áður var óþörf og ekkert nema vesen var núna orðið þvílíkt gleðiefni. Já, eftir allt saman þá var þessi gjöf ekki svo slæm, og er ég jafnvel að spá í að fá mér stærra búr og fleiri fiska, en ekki segja unnustanum... hann er ekki alveg jafn hrifinn af fiskunum og ég.

Ég skora á kollega minn, Daníel Þór Gunnarsson til að koma með næsta pistil.

Áður birst í 22. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir