Alveg ótrúlegt

Hvers vegna er margt í okkar daglega lífi orðið svo ótrúlegt? Getur einhver sagt mér það? Ég varpa þessu fram hér því í daglegu tali margra, eru orðin ótrúlegt og ótrúleg/ur mjög mikið notuð. Ofnotuð. Í umfjöllun um nánast hvaðeina. Manneskja sem vinnur vel, jafnvel til verðlauna er talin ótrúleg og afrekið hennar einnig. Er ekki bara trúlegt að verðlaunin séu verðskulduð, því æfingin skapar meistarann?

Einhver segir mér sögu af einhverju mögnuðu, hverju sem er, flestu ótrúlegu að hans sögn. Trúlegt? Vinur minn sagði mér að vinur hans hefði sagt sér alveg ótrúlega lygilega sögu. Er ekki bara trúlegt að þessi vinur hans sé lyginn, jafnvel hraðlyginn og því sé sagan hans lygi frá upphafi til enda, jafnvel haugalygi. Veit ekki. Fleira ótrúlegt mætti tína til. Hvað sem einum kann að þykja eitthvað vera ótrúlegt, kann öðrum þykja hið sama trúlegt.

Annað. Að meiðast. Ég hef meitt mig, oft. Og ég get fullyrt að ég hef aldrei meitt mig vel eða illa. Aðeins lítið eða eitthvað meira. Ef einhver veit hvar mörk þess að meiða sig vel eða illa liggja, má hinn sami láta mig vita af því. Ef fingur brotnar, er þá sá sem hann á, vel brotinn en ef handleggur brotnar á sama einstaklingi, er hann þá illa brotinn? Veit ekki. Veit bara að brot er brot. Síðan hvenær fór fótboltavöllurinn að hallast? Skyldi vera sami halli á þeim öllum? Menn eru alveg hættir að hlaupa fram og aftur völlinn, heldur hlaupa þeir hann upp og niður! Ég var vanur að skokka láréttan völlinn en rölta upp á hólinn og aftur niður. Ótrúlegt. Að lokum. Eitt er þó alveg ótrúlegt og ber ég ekki neina ábyrgð þar á, og það er að ég, skuli enn af ótrúlega mörgum, vera kallaður Leifur og Leifur kallaður Kolli. Aldeilis vita hreint ótrúlegt.

Ég skora á nágranna minn, hana Laufeyju Haraldsdóttur að koma með næsta pistil.

Áður birst í 30. tbl. Feykis 2017

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir