Andri Snær, Stephan G. Skagfirðingar

Viðar Hreinsson
Viðar Hreinsson

Þegar ég ritaði ævisögu Stephans G. Stephanssonar vandi ég ferðir mínar í Skagafjörð, kynntist sögu héraðsins og ágætum Skagfirðingum. Síðan hefur mér verið hlýtt til héraðsins. Það hefur lengi loðað við ímynd Skagfirðinga að þeir séu djarfmæltir gleðimenn og hreinskilnir, þori að segja það sem segja þarf. Eitt þekktasta ljóð Stephans G. er Fjallið Einbúi og mörgum eru þessar ljóðlínur tamar: „Hann stendur sem hreystinnar heilaga mynd, / og hreinskilnin klöppuð úr bergi.“ (Andvökur I 378)

Ekki er víst að öllum detti Andri Snær Magnason í hug þegar þessar hendingar eru hafðar yfir. Hann hefur þó alltaf þorað að mæla djarflega fyrir hugmyndum sem hann vissi að yrðu óvinsælar. Hann hefur verið einn öflugasti talsmaður íslenskrar náttúru undanfarin ár, auk þess að vera heil hugmyndaveita á öðrum sviðum. Nú njóta hugmyndir frumherjans nánast almannahylli.

Þegar nánar er að gáð eiga Andri Snær og Stephan G. margt sameiginlegt. Stephan var harðlega gagnrýndur fyrir hvassa samfélagsgagnrýni og mönnum datt jafnvel í hug að ákæra hann fyrir landráð vegna andstöðu við stríðsrekstur. Hann gagnrýndi pólitískt valdapot og setti fram hugmyndir um fjölmenningu 70 árum áður en hún varð opinber stefna í Kanada, meðal annars að frumkvæði Pierre Trudeau, föður Justins Trudeau, hins vinsæla forsætisráðherra Kanada.

Eins og Stephan G. er Andri Snær Magnason einarður hugsjónamaður, óhræddur við að ganga gegn straumnum, einstaklega hugmyndaríkur og öflugur talsmaður náttúruverndar, lýðræðis, mannúðar og fjölmenningar. Hlýr í viðmóti og framkomu og talar mannamál, eins og Stephan G og Trudeau!

Margir halda að Andri Snær sé lattelepjandi borgarbarn. Það er einfaldlega rangt, enda á hann rætur, vini og samstarfsmenn víða um land. Það er hins vegar ástæða til að velta fyrir sér samhenginu: 

Á 20. öld breyttist Ísland úr dreifbýlissamfélagi í borgarsamfélag, hraðar en gerðist víðast hvar annars staðar. Slíkar breytingar eru oft erfiðar og sársaukafullar og þær hafa kveikt óþörf menningarátök. Upp úr síðustu aldamótum gerðist margt sem dró úr togstreitunni, meðal annars vegna vaxandi og lifandi áhuga borgarbúa á menningarlegum rótum sínum víða um land. Að því leyti er landsbyggðin neysluviðfang, þéttbýlisbúar af suðvesturhorninu ferðast um landið, skoða það og blanda geði við fólk.

Íslensk landsbyggð er þó og verður að vera meira. Hún verður að vera skapandi aflstöð og slíkir sprotar sjást um land allt. Andri Snær Magnason hefur alltaf séð landið sem eina lifandi heild. Hann hefur einstaklega næman skilning á sambúð lands og þjóðar, á menningu að fornu og nýju, á þeim skapandi möguleikum sem leynast um allt land. Því verður hann forseti sem getur sameinað fólk úr þéttbýli og landsbyggð í lifandi samræðu.

Því hvet ég Skagfirðinga og landsmenn alla til að kynna sér framboð Andra Snæs Magnasonar og stefnumál hans á http://andrisnaer.is/ og kjósa hann svo sem forseta! 

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir