Áskorun til Barnaverndarstofu og velferðarráðherra

Háholt. Mynd: Feykir
Háholt. Mynd: Feykir

Við starfsmenn Meðferðar og skólaheimilis Háholts skorum á Barnaverndarstofu og Velferðarráðherra að íhuga vel stöðu sem og þörf fyrir Háholt sem meðferðarheimili.  Í starfsmönnum býr mikill mannauður, áralöng reynsla af störfum á meðferðarheimili sem og margþætt reynsla úr öðrum störfum sem nýtist vel til að miðla reynslu og aðstoða nemendur við að byggja upp líf sitt.

 Við höfum flest öll tekið námsskeið sem í boði hafa verið hjá Barnaverndarstofu s.s MI sem snýst um að virkja og hvetja nemendur á þeirra forsendum og A.R.T. sem er marghliða þjálfunarprógram sem beinist að félagslegri færniþjálfun, siðferðislegri rökræðu og tilfinningum. Á Háholti er starfandi sálfræðingur í hlutastarfi.

Við erum í góðu sambandi við vinnumarkaðinn í héraðinu og höfum við getað aðstoðað marga nemendur við að fá fræðandi atvinnutækifæri á þeirra forsendum og hafa þau nýst þeim þegar dvöl þeirra er lokið hér.

Skagafjörður sem staðsetning hefur marga kosti, við höfum gott bakland í ýmiskonar útivist og hreyfingu, s.s. fjórar sundlaugar, líkamsræktarstöð, hestaleigur, rafting, sjóveiði, vatnaveiði, merktar gönguleiðir, golfvöll, skíðasvæði og greiðan aðgang að hópíþróttaiðkun ýmis konar svo sem frjálsum, körfubolta og fótbolta ef áhugi er fyrir hendi.

Einnig er grunnskóli, tónlistarskóli og fjölbrautarskóli með öflugu verk og bóknámi. Við höfum einnig átt farsælt samstarf við ökukennara á Sauðárkróki og hafa margir nemendur okkar lokið dvöl sinni hér með ökuskírteini í vasanum.  Á svæðinu eru einnig nokkur söfn, bókasafn, kvikmyndahús og menningarviðburðir.

 Háholt er miðsvæðis í Skagafirði svo stutt er í alla afþreyingu fyrir utan að það tekur aðeins klukkustund að fara til Akureyrar.

Á Sauðárkróki er öflug heilsugæsla, tannlæknar, sjúkraþjálfarar og vel menntað fólk í hárgreiðslu og snyrtistörfum.

Húsið sem meðferðarheimilið er rekið í er byggt sérstaklega fyrir þessa starfsemi, nóg rými til tómstunda hvort sem er í félagskap annarra nemanda eða í einrúmi. Breytingar voru gerðar á húsinu 2014 til að uppfylla kröfur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Aðstaða er til staðar fyrir gæsluvarðhaldsfanga ef svo ber undir.

Árangur af okkar meðferðarstarfi síðastliðin ár teljum við góðan og okkar tilfinning er að nemendum líði vel sem lýsir sér meðal annars í því að nemendur hafa óskað eftir framlengingu á meðferð sinni hér og dæmi er um framlengingu eftir að 18 ára aldri var náð. Teljum við að fjarlægð frá Reykjavík og góðar móttökur í minna og opnara  samfélagi hafi þar mikið að segja. Okkar tilfinning fyrir þörf á meðferðarheimili hér er að þó nemendahópurinn sé ekki sá stærsti þá þarf samt að sinna honum með alúð og virðingu. 

Skorum við því á Barnaverndarstofu og Velferðarráðherra að halda áfram því góða meðferðarstarfi fyrir unglinga sem hér hefur verið starfrækt síðan 1999.

Virðingarfyllst!

Starfsfólk Meðferðar og skólaheimilis Háholts.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir