Bestu leikmenn fótboltans hafa allir spilað fyrir Liverpool

Helgi Freyr Margeirsson er körfuboltaunnendum landsins vel kunnur og bíða áhangendur Tindastóls ætíð spenntir eftir því að sjá boltann svífa langt utan af velli og smella ofan í körfuna. Þrátt fyrir að Helgi sé körfuboltamaður blundar fótboltaáhuginn hjá kappanum og skoraði fyrrum félagi hans hjá Stólunum, Ingvi Rafn Ingvarsson, á hann að svara spurningum í Liðinu mínu.

Hvert er uppáhaldsliðið þitt í enska boltanum og af hverju? Liverpool, því það er og verður alltaf stærsta liðið í enska boltanum.  Bekkjarbræður mínir í 1.bekk, Björn Ingi Óskarsson og Ragnar Frosti Frostason voru með þessa hluti meira á hreinu í upphafi skólagöngu og bentu mér á hversu stórkostlegt lið Liverpool væri og er ég þeim ævinlega þakklátur.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? 1.sæti, titillinn kemur heim í ár og kæmi mér ekki á óvart þó þeir yrðu fleiri en einn, Klopp veit hvað hann syngur.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? Ég er mjög sáttur við stöðuna, byrjuðum tímabilið á fyrirfram mjög erfiðum leikjum sem eftir á að hyggja voru þeir frekar léttir og hefðu flestir geta unnist stærra.  Sárast var jafnteflið við dýrasta rútufyrirtæki deildarinnar sem „hinn niðurlægði“ stýrir í dag.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? Það er nú voðalega lítið.  Það hefur reyndar aukist mikið núna síðustu dægrin að menn séu að koma til mans og spyrja hvort ekki sé pláss á Liverpool vagninum þar sem að allir sem fylgjast með knattspyrnu sjá hversu líklegt liðið er til afreka á árinu.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? Steven Gerrard.

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? Nei, ekki ennþá.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? Já, ég á treyju og forláta kristalsbikar merktum liðinu sem afi Valli gaf mér en hann keypti sér samskonar fyrir uppáhalds lið sitt Chelsea (Sélsí eins og gamli kallaði það J).

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið?  Margrét mín er grjótharður stuðningsmaður og missir ekki af leik.  Ég veit ekki hvað við höfum mætt seint í margar afmælisveislur því hún þarf að klára leikinn fyrst.  Börnin fá að ráða sér sjálf en miðað við stemninguna í kringum liðið og sigursæluna sem umlykur það að þá gerist það að sjálfum sér.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? Nei, það hefur mér aldrei dottið til hugar.

Uppáhalds málsháttur? You‘ll Never Walk Alone

Einhver góð saga úr boltanum? Ég fór í eina keppnisferð þegar ég var 16 ára en þá var ég í raun hættur og farinn, búinn að snúa mér að körfuboltanum.  Þessi keppnisferð var austur á land og áttum við að spila tvo leiki yfir helgina.  Farartækið var gamall Benz jálkur sem átti mjög erfitt með allar brekkur og leiðin dróst því mikið.  Ferðalagið tók hátt í 12 tíma.  Ég kom inná í hálfleik í fyrri leiknum og ætlaði aldeilis að láta til mín taka og vinna mér inn sæti í byrjunarliðinu fyrir seinni leikinn.  Miðjan er tekin og náði ég að skjóta mér inní sendinguna en er jafnharðan tæklaður illa niður.  7 sekúndur liðnar og ég illa snúinn og óleikfær það sem eftir var ferðarinnar.  Það sem bjargaði því sem bjargað varð í þessari ferð fyrir mitt leyti var hversu skemmtilegur hópur var í þessu liði.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? Eitt sinn þegar ég var  með háskólaliði mínu í USA að þá fórum við í keppnisferð til San Francisco, mjög skemmtileg borg þar sem margir menningarheimar eiga heima og sín hverfi.  Þegar liðið átti frídag þá var ákveðið að taka göngu í borginni og þá fór ég meðal annars í Kínahverfið.  Þar er algjörlega annar heimur, og mikið til allt s.s. matseðlar og auglýsingar bara á kínversku.  Þegar ég var að ganga þarna í gegn að þá var þar útimarkaður í gangi og þar var verið að afhausa froska og verka fisk úti á götu, eitthvað sem þú sérð almennt ekki í Bandaríkjunum.  Þarna datt ég í eina búð sem seldi kanínur, froska og hænur meðal annars, á fæti.  Mér datt í hug að það gæti verið gaman að kaupa eina hænu.  Hænan var sett í brúnan bréfpoka og svo hafði ég hana bara með mér út.  Hænan í myrkruðum pokanum lét lítið fyrir sér fara og gaf ekki einu sinni frá sér hljóð.  Þarna gekk ég út um allt Kínahverfið og fleiri staði s.s. rússnesku hæðirnar með hænuna lifandi í pokanum, að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera við hana... og pínu afhverju ég hefði verið að kaupa hana því það voru til sölu mun meðfærilegri minningargripir um dvöl mína þarna en hæna. Allavega, liðið fer út að borða um kvöldið á veitingastað rétt hjá hótelinu, ég skófla í mig matnum og segist svo þurfa að drífa mig upp á hótel, fer í móttökuna og þykist vera aðstoðarþjálfari liðsins og fæ lykil að herberginu hans, sem var beint á móti mínu.  Því næst fer ég með hænuna inní herbergið hans, sem var á 7. hæð og sleppi henni í baðkarið og dreg sturtuhengið fyrir.  Ég bíð svo eins og fimm ára barn eftir jólunum eftir að hann komi til baka af veitingastaðnum og ég horfi allan tímann í gegnum öryggisgatið á hurðinni minni yfir til hans.  Eftir um hálftíma bið heyri ég brjáluð öskur og strax í framhaldinu riðst aðstoðarþjálfarinn fram á gang hálf nakinn allur útataður í raksápu, eins og hann hefði séð draug.  Ég stekk fram og þykist ekkert vita, hann segir mér að það sé lifandi hæna í baðkarinu, í herberginu hans hérna uppá 7. hæð... Þarna ákallar hann guð sinn nokkuð oft meðan hann er að ná sér niður...

E.s. Hænan lifði góðu lífi eftir þetta og er mögulega enn gæludýr hótelsins.

Spurning frá Ingva Ingvars: Eru Liverpool líklegir í ár? Aldrei líklegri, Klopp kann formúluna.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? Matthías Rúnarsson

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? Hvort stingur meira, að hafa „þann niðurlægða“ sem stjóra eða hægasta framherja deildarinnar sem lykilmann?

Áður birst í Feyki 40. tbl. 2016

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir