Nokkur orð til umhugsunar

Ólafur Hallgrímsson Mælifelli í Skagafirði.
Ólafur Hallgrímsson Mælifelli í Skagafirði.

Uppi eru hugmyndir um byggingu 120 þúsund tonna álvers við Hafurstaði í Skagabyggð í samvinnu við kínverska aðila. Hafa sex sveitarfélög á Norðurlandi vestra undirritað viljayfirlýsingu um byggingu álversins í samvinnu við kínverskt fyrirtæki, NFC, sem hyggst fjármagna álverið að stórum hluta. Hefur ríkisstjórnin veitt 30 milljónum af fjárlögum þessa árs til undirbúnings verkefninu. 

Mjög munu skiptar skoðanir meðal íbúa á Norðurlandi vestra um áform þessi, og hugnast ýmsum illa sú hugmynd að setja mengandi stóriðju niður í miðju landbúnaðarhéraði. Ein aðalröksemd áhugamanna um álver er sú, að tilkoma þess muni bæta verulega atvinnuástandið á Norðurlandi vestra og draga úr eða stöðva fólksflutning af svæðinu. 

Nú er það svo, eins og alþjóð veit, að reist hafa verið þrjú álver á Íslandi og komin nokkur reynsla á þá atvinnustarfsemi. Álver Alcoa á Reyðarfirði tók til starfa síðla árs 2007. Fróðlegt er að kanna, hver reynslan hefur orðið þar á þessum tæpa áratug, hvað varðar áhrif álversins á atvinnulíf á Austurlandi og íbúaþróun þar. 

Í Glettingi, tímariti um austfirsk málefni, 25. árg. 2. tbl. 2015, sem gefið er út á Egilsstöðum, er fróðleg samantekt um þetta efni, sem undirritaður vill vekja athygli á. Þar er rætt við Björn Hafþór Guðmundsson, fyrrum framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) með meiru, sem enn starfar þar á vettvangi sveitarstjórnarmála. Tilefnið er grein, sem hann ritaði í Gletting árið 1991 um stöðu mála á Austurlandi á breiðum grunni og framtíðarsýn hans þá á þróun búsetu í fjórðungnum, á hvern hátt hún yrði. Nú er hann beðinn að líta „í baksýnisspegilinn“, ef svo má að orði kveða, og leggja mat á, hvað áunnist hafi í atvinnuuppbyggingu og búsetuþróun Austurlands á þeim árum, sem liðin eru, síðan hann ritaði greinina, m.a. út frá tilkomu stóriðju á Austurlandi á greindu tímabili. Þegar ritstjóri Glettings spyr Björn Hafþór um tilkomu álversins á Reyðarfirði og væntingar, sem byggingu þess voru samfara, þá telur hann alveg ljóst, að á héraðs- og landsvísu hafi verið reiknað með fjölgun íbúa á Austurlandi samhliða byggingu álversins, sem m.a. birtist í óraunsærri bjartsýni í byggingu íbúðarhúsnæðis á mið - Austurlandi. Aðspurður hvort fólksfjöldaspárnar hafi gengið eftir, svarar hann, að svo hafi greinilega ekki orðið, þó fjölgað hafi nokkuð á miðsvæðinu vegna tilkomu álversins. Þegar hann er síðan spurður nánar, í hverju spárnar hafi brugðist, er svar hans þetta: 

„Íbúum hefur fækkað meir en góðu hófu gegnir til „jarðanna“, þegar á heildina er litið. Þess vegna hefur okkur ekki verið að fjölga, þrátt fyrir tilkomu álversins, enda aldrei markvisst unnið að því að efla svæðið í heild og fjölga körfunni með eggjunum.“ 

Þessu til viðbótar birtir svo ritstjórinn í sama tbl. samantekt um fólksfjöldaþróun í Austurlandskjördæmi á árunum 1991 - 2014, þar sem fram kemur, að í fjórðungnum hefur á þessu tímabili fjölgað um rúmlega 700 manns, en sú fjölgun skilar sér einvörðungu til Reyðarfjarðarsvæðisins og Héraðs (Egilstaða). Önnur svæði ýmist halda sínu eða missa íbúa. Heildarmyndin allt tímabilið sýnir fækkun íbúa á Austurlandi upp á tæplega fimm prósent íbúa, á sama tíma sem landsmönnum öllum fjölgaði um rúmlega 26%. Þannig lítur þá staðan út í dag á Austurlandi. 

Þrátt fyrir bjartsýnar spár um fólksfjölgun samfara uppbyggingu stóriðju á Reyðarfirði þá er heildarmyndin sú, að fækkun íbúa á Austurlandi heldur áfram, þrátt fyrir tilkomu álvers, sem aðeins veitir fjögur til fimm hundruð manns fasta atvinnu auk afleiddra starfa. Þá er rétt að hafa í huga, að á sama tímabili hafa horfið hundruð starfa í sjávarútvegi á Austfjörðum vegna lokunar frystihúsa og vinnslustöðva, sem að einhverju leyti má rekja til ruðningsáhrifa frá álversframkvæmdum. 

Í dag ríkir e.k. kyrrstaða á Austurlandi, þegar á heildina er litið. Fólki fækkar á norðanverðum og sunnanverðum fjörðum, en annars staðar er óveruleg fjölgun. Staða sumra sveitarfélaga á svæðinu, t.d. Fljótsdalshéraðs, er bágborin. 

Nú verður hver og einn að meta, hvort hann telji, að fjölgun íbúa um nokkur hundruð manns á mið - Austurlandi  geti talist viðunandi árangur, miðað við allar væntingar og það gífurlega fjármagn, sem lagt var í stóriðjuframkvæmdirnar eystra. Staðfestir þetta ekki, að hvert starf í álveri er mjög dýrt, miðað við hve fá þau eru. Reynslan hefur leitt í ljós, að álver á Austurlandi hefur ekki orðið sú lyftustöng fyrir fjórðunginn, sem að var stefnt. Reynslan staðfestir líka, að erfitt er að stýra íbúaþróun, kemur þar fleira til en atvinna og efnahagur, t.d. heilbrigðisþjónusta, skilyrði til menntunnar o.s.frv. Fólk sest að, þar sem það vill búa. 

Mér virðist ástæða til að staldra við og skoða reynsluna af Austurlandi, nú þegar uppi eru hugmyndir um álver til atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi vestra. Hringja þar ekki einhverjar viðvörunarbjöllur, sem ástæða er til að gefa gaum? 

Ólafur Hallgrímsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir