Enn af hegðunarvanda og sálarkröm meðferðarfólks

Hroki og hatursáróður SÁÁ-manna og meðferðarþega þeirra í garð vímuefnaneytenda, háðsglósur og skítkast, er af þeirri stærðargráðu að lengi þarf að leita til að finna eitthvað sem kemst þar í samjöfnuð, meira að segja hér á Íslandi, landi níðskálda og mannorðsþjófa. Og ekki bara í garð vímuefnaneytenda heldur líka allra þeirra sem ekki liggja hundflatir fyrir firrum og hjáfræðum þessa fólks.

Frægasta dæmið um hið síðarnefnda mun vera þegar talskonur Rótarinnar - Félags um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda - bentu á að fleiri úrræði gætu gagnast í baráttunni við áfengis- og lyfjafíkn en hið úrelta Minnesota-módel sem SÁÁ byggir allt sitt meðferðarstarf á - og buðu í ofanálag tveimur frægum alþjóðlegum fyrirlesurum, Stephanie Covington og Gabor Maté, til Íslands. Við þetta ætlaði allt um koll að keyra hjá SÁÁ og geta áhugasamir lesendur fræðst um viðbrögðin sem þær Rótarkonur fengu úr þeim herbúðum í grein sem þær skrifuðu sér til málsvarnar og birtu á vefsíðu félagsins www.rotin.is og í vefútgáfu Fréttablaðsins visir.is 30. júní 2016, en greinin ber hið lýsandi heiti: Hvað er að hjá SÁÁ?

            Þegar best lætur (eða ætti ég kannski heldur að segja þegar verst lætur!) talar þetta meðferðarfólk niður til viðmælenda sinna sem eru á öndverðum meiði við það, með niðrandi og yfirlætislegri góðvild og lítt dulinni vorkunnsemi, líkt og mönnum hættir til að tala við fávita sem eru að þenja sig um hluti sem þeir hafa ekki minnsta vit á, og á nákvæmlega sama hátt og evrópskir landtökumenn töluðu niður til frumbyggjanna í nýlendunum sem þeir höfðu sölsað undir sig, því þeir töldu þá standa á lægra menningar- og þekkingarstigi.

            Þegar fólk er á annað borð fallið ofan í þetta far, að þykjast vita allt betur en aðrir - ekki síst um það hvernig náunginn eigi að haga sínum málum -, er því víðsfjarri að það einskorði sig við svið áfengis og annarra vímuefna. Hitt er nær sanni að þessar slettirekur láti sér fátt mannlegt óviðkomandi.

            Þetta er fólkið sem spyr þig að því, hvort þú sért nógu vel klæddur, þegar þú ert að fara út í kulda. Þetta er fólkið sem spyr þig að því, hvort þú sért með farsíma til að geta látið vita af þér, ef eitthvað kæmi fyrir þig, þegar þú ert að ganga úti þér til heilsubótar á sumrin. Þetta er fólkið sem segir þér að þú eigir að fá þér bakpoka, þegar þú ert að labba heim með úttektina þína í handpokum. Þetta er fólkið sem segir þér að það gangi alls ekki að hafa þetta svona heldur verði það að vera allt öðruvísi, þegar þú ert að lýsa fyrir því þeim breytingum sem þú hefur áformað að gera á útidyrapallinum þínum. (Og þess má geta hér innan sviga, þó ekki komi þessu sjónarhorni beinlínis við, að sumt af þessu fólki getur átt það til að hringja í mann eftir andlát nákomins ættingja til að spyrjast fyrir um það, hvort hann hafi ekki notað ,,eitthvert eitur"!)

            Vert er að skerpa á því að hér er um að ræða fólk sem ekki hefur haft burði til að standa í lappirnar af eigin rammleik, skriðið í meðferðir, ýmist sjálfviljugt eða undir þrýstingi frá öðrum, látið tæta sálarlíf sitt sundur í smáparta og raða því síðan saman aftur með misgæfulegri útkomu, eins og dæmin sanna. Fólk með slíkan bakgrunn hefur engin minnstu efni á því að setja sig í barnapíustellingar yfir öðrum. Og svo er fyllsta ástæða til að halda því til haga, að það er ekki hægt að sýna neinum heilvita manni meiri lítilsvirðingu en þá að setja sig í stellingar til að hugsa fyrir hann á þennan hátt.

            Það grátbroslegasta við þetta er að öll þessi ,,ofurviska" og yfirdrifna forsjárhyggja mun sjaldnast vera sprottin af sjálfstæðri ígrundun - því fólk af þessu sauðahúsi er svo sem ekkert að flækja líf sitt að óþörfu með því að hugsa sjálfstætt - heldur virðist það vera partur af meðferðarprógramminu að innræta fólki að með því að taka inn á sig þá lífssýn og þær lífsforsendur sem eru predikaðar í meðferðunum, verði það öðrum hæfara til að gerast andlegar ljósmæður fyrir náungann. Við þekkjum öll svona fólk! Þetta er fólkið sem hefur svo gaman af því að bjóða heim til að geta haldið sýningu á því hvað það eigi fallegt heimili og hafi efni á að borða góðan mat!

 

Guðmundur Sigurður Jóhannsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir