Feiti kallinn og Frakkland - Hugleiðing sr. Gísla Gunnarssonar við áramót

Sr. Gísli Gunnarsson.
Sr. Gísli Gunnarsson.

“Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?”

Þannig hljóðaði ein spurning ársins, sem nú er

að líða.

Og síðan var spurningin endurtekin og sagt:

“Hvar eigum við að koma honum fyrir þessum feita?” - Og smá hlátur fylgdi með.

Einhver sem heyrir þetta kann að halda að það hafi verið börn eða unglingar sem báru fram þessar spurningar.

Kannski í hugsunarleysi.

Eða til að stríða einhverjum, eða særa.

Í skólanum væri talað um einelti – fordóma.

 

En þetta var ekki stríðnispúkinn í bekknum sem þarna var á ferðinni.

Ekki sá sem þurfti ávallt að láta á sér bera.

Nei, - sá sem lagði fram þessar spurningar var þekktur fréttamaður RUV.

Það voru að hefjast pallborðsumræður stjórn-málaleiðtoga s.l. haust og voru allir mættir nema einn, sem var eitthvað seinn fyrir.

Það var forsætisráðherra Íslands.

Þá spurði fréttamaðurinn þessara spurninga:

“Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?”

Og átti við ráðherrann.

Vegna mistaka hans heyrðust þessar spurningar á öldum ljósvakans.

Einhverjir vildu koma ráðherranum til varnar og sögðu að hann væri alls ekki feitur, bara þykkur og þéttur á velli, - sem ég tel rétt vera.

En málið snýst ekki um það.

Mér finnst þessi uppákoma snúast fyrst og femst um taktleysi og kjánaskap.

Hún sýnir að sumir fjölmiðlamenn telja sig svo hátt upp hafna að þeir þurfi ekki á þeim siða-reglum að halda sem annars gilda almennt í þjóðfélaginu.

Vald þeirra er orðið svo mikið að þeir megi segja nánast hvað sem er og hvernig sem er.

Og rétt er það, að vald fjölmiðlanna í okkar þjóðfélagi er orðið gríðarlegt.

Og því er ekki sama hvernig þessu valdi er beitt.

Eins og með allt annað er hægt að beita því á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Og vissulega hefur það mikil áhrif á daglega umræðu ef þessu valdi er beitt á neikvæðan hátt og allt lagt út á versta veg.

Því miður virðist mér að vinsælla sé að fjalla um hið neikvæða í fjölmiðlum en hitt sem gleðjast má yfir. Það virðist reglan.

 

Reyndar las ég nýlega pistil eftir blaðakonu sem skrifar: (Mbl. Ingveldur Geirsdóttir)

“Þegar ég reyni að fanga andann í þjóðfélaginu árið 2016 er orðið tuð það fyrsta sem kemur upp í huga minn.”

Síðan rökstyður hún mál sitt með ýmsum hætti og tekur dæmi t.d. af samfélagsmiðlum, en segir svo í lok greinarinnar:

“Hvernig væri að áramótaheit Íslendinga væri minna tuð, meiri gleði og afslappaðra viðhorf til náungans, það er ekki gaman að fara af stað inn í enn eitt árið með vísifingurinn á lofti.

Það væri gaman ef fjölmiðlafólk mundi tileinka sér almennt þessi orð kollega síns.

 

En þrátt fyrir tuð og nöldur ýmiss konar þá sýndum við Íslendingar það á árinu að við getum staðið saman og að við getum glaðst saman sem ein þjóð.

Það var íslenska landsliðið í knattspyrnu sem sýndi okkur það með frammistöðu sinni í Evrópumótinu í sumar.

Leik eftir leik gátum við glaðst yfir því hvernig liðinu gekk í keppni við stórþjóðir í knattspyrnu og átti ég þess kost að vera á leiknum í París, á Stade du France þegar Ísland- Frakkland áttust við í átta liða úrslitum.

Það sem hafði mest áhrif á mig átti sér stað áður en leikurinn hófst.

Þegar tuttugu þúsund Íslendingar sungu þjóðsönginn.

Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn.

Sálmur nr. 516 í sálmabókinni

Sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar sem byggður er á orðum nítugasta Davíðssálms.

Þar sem segir:

“Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heim-urinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

 

Það er ekki langt síðan að umræða var um það að skipta þyrfti um þjóðsöng.

Okkar þjóðsöng væri ómögulegt að syngja auk þess að vera sálmur meðan margar aðrar þjóðir væru með herskáa hermanna- og stríðssöngva sem auðvelt væri að syngja.

En nú er enginn að tala um það.

Og því má þakka íslenska landsliðinu í knattspyrnu.

Og það má líka þakka því hvað margir kunna nú þjóðsönginn, líka börn og unglingar.

Það er líka svo fallegt að þegar margar aðrar þjóðir syngja um veldi sitt og styrkleika sem aðrir munu fá að kenna á, þá syngjum við af hógværð um þjóðina okkar sem “eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr.”

Þó að ég sé ekki alltaf í boltanum þá gat ég ekki annað en hrifist með á þessu ári og ég veit að svo er einnig um mörg ykkar.

Og þetta ár verður örugglega ekki síst í minnum haft vegna þeirra íþróttasigra sem íslenskt íþróttafólk vann í ýmsum greinum víða um heim.

 

En í hinu stóra samhengi og á sviði heimsviðburðanna þá er það örugglega ýmislegt annað sem verður minnisstætt.

Og þar er vissulega margt sem hrjáir mannkyn og mest er það af manna völdum.

Stríð og ófriður, sem milljónir reyna að flýja.

Hryðjuverk og ýmiss önnur myrkraverk sem unnin eru af ótrúlegri grimmd og miskunnarleysi.

Óvirðing við náttúruna og Guðs góðu sköpun.

Og í ljósi þessa verður svo ljóst að

það mikilvægasta í heiminum eru friðarmál og umhverfismál.

Annars eyðileggur maðurinn lífið á jörðinni.

Og í ljósi þess verður tuðið sem áður er nefnt svo ómerkilegt og óskiljanlegt.

Eins það, þegar fjölmiðlar reyna að tala niður margt af því sem vel er gert í okkar landi.

Við þurfum að standa saman eins og við gerum þegar landsliðin okkar, bæði karla og kvenna eiga í hlut.

Geta glaðst saman.

Og sungið saman.

 

 Á leiðinni út til Frakklands í sumar var tekið leiguflug og áhöfnin var erlend. Það var mikil stemning meðal ferðafélaganna og var lagið Ég er kominn heim, eða Ferðalok, sungið í vélinni.

Þegar þeim söng lauk var smá þögn, en þá heyrðist rödd í hátalarkerfinu í fyrstu lág og feimnisleg, en styrktist þegar á leið.

Þar var einn úr áhöfninni að syngja franska þjóðsönginn og uppskar mikið lófaklapp.

Þannig geta samskipti manna og þjóða verið falleg, hvetjandi og virðuleg.

Og manni líður vel. - Þannig á lífið að vera.

 

Alltaf kemur sálmur Stefáns frá Hvítadal upp í huga mér við áramót                          

Þar sem þessar línur koma fyrir:

 

Árin seytla eins og lindir,

aldir hníga líkt og fljót,

eilífiðin sem úthaf bíður,

allra tíma stefnumót.

 

Tímanum líkt við vatnið sem stöðugt er á hreyfingu.

Árin safnast saman eins og fjallalækir sem verða að fljóti sem að lokum rennur til sjávar.

Þar sem eilífðin bíður.

 

Það eru ávallt blendnar tilfinningar við áramót.

Eftirsjá og eftirvænting.

Við lítum gjarnarn yfir farinn veg.

Og það hefur ýmislegt dunið á í okkar samfélagi og nærumhverfi.

Fólk hefur misst eigur sínar í húsbrunum.

Riðuveiki hefur stungið sér niður á bæjum með tilheyrandi eignatjóni og áföllum.

Sjúkdómar og veikindi ýmiss konar, hafa gert vart við sig.

Og fleira sem ekki er hér upp talið.

En margt hefur snúist til betri vegar og vonandi verður svo með flesta hluti.

 

Við vitum ekki hvað komandi ár ber í skauti sínu.

Sem betur fer, finnst okkur sjálfsagt flestum.

Við erum oft hrædd við breytingar.

Viljum hafa það sem við þekkjum og erum vön.

En breytingar geta einnig verið til góðs.

Og jafnvel geta erfiðleikar leitt til góðs.

Eins og sagan af fuglinum kennir:

 

Á hverjum degi leitaði fugl sér skjóls í visnum kvistum trés sem stóð í miðri eyðimörkinni. Dag nokkurn skall á hvirfilvindur, reif tréð upp með rótum og vesalings fuglinn hraktist margar mílur í leit að skjóli. Að lokum fann hann skóg með frjósömum ávaxtatrjám.

 

Hefði þetta visnaða tré staðist storminn, hefði ekkert fengið fuglinn til að yfirgefa öryggi sitt og fljúga burt

Það er haft eftir Nelson Mandela að “erfiðleikar bugi suma en skapi eða búi til aðra.”

Og hann talaði af reynslu.

Hann sagði líka:

“Það er margt sem virðist ógerlegt þar til það er gert.”

 

Ég hitti frænda minn í Reykjavík um daginn.

Þann sama og sannfærði mig á föstudagskvöldi um að fara með sér á leikinn í París í sumar, sem var á sunnudegi.

Hann sagði mér að hann væri búinn að skrá sig í Vasa-gönguna í Svíþjóð sem er keppni í 90 km. langri skíðagöngu við erfiðar aðstæður. Keppnin átti að hefjast eftir 80 daga. Hann hafði aldrei stigið á gönguskíði, en var búinn að kaupa þau og ætlaði að fara að æfa.

Og ég veit að hann mun koma í mark.

“Það er margt sem virðist ógerlegt þar til það er gert.”

 

Mig langar að lokum að þakka ykkur allt samstarf á árinu sem er að líða.

 

Við þökkum Guði sem leiðir þennan dag til lykta og hylur hinn ókomna, þökkum fyrir árið sem nú er liðið, felum honum gleði þess og sorgir, allt sem það gaf og tók.

 

Í hendi hans felum við árið liðna og í trausti til handleiðslu hans höldum við inn um dyr hins nýja.

 

Og ég bið góðan Guð að gefa ykkur farsælt, gleðilegt og gott ár. – Já, megum við öll eiga gott ár. Feiti kallinn líka.

 

Í Jesú nafni. Amen.

 

 

(Ræða flutt í Glaumbæjarkirkju á gamlársdag).

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir