Ferð að Öskugosinu í október 1961

Ferðalangarnir við hraunjaðarinn, að frátöldum ljósmyndaranum, Stefáni B. Pederson. Frá vinstri: Valur Ingólfsson, Ingólfur Nikodemusson, Sigurður R. Antonsson, Gunnar Helgason, Guðmundur Helgason, bifreiðarstjóri í ferðinni.
Ferðalangarnir við hraunjaðarinn, að frátöldum ljósmyndaranum, Stefáni B. Pederson. Frá vinstri: Valur Ingólfsson, Ingólfur Nikodemusson, Sigurður R. Antonsson, Gunnar Helgason, Guðmundur Helgason, bifreiðarstjóri í ferðinni.

Það var 12. október á því herrans ári 1961 sem jarðskjálftamælar hér á landi fóru að sýna jarðskorpuhreyfingar, sem vísindamenn töldu benda til að eitthvað óvenjulegt væri á seyði í Dyngjufjöllum. Nokkrum dögum síðar, eða 19.  október urðu vísindamenn, sem staddir voru á svæðinu, áhorfendur að því að stórkostlegur hver myndaðist nærri Öskjuopi og spjó leir og grjóti yfir næsta umhverfi sitt. Nokkru síðar hætti að mestu vatnsrennsli frá hvernum og töldu vísindamenn það benda til þess að kvika hefði soðið allt vatn úr berggrunninum og hún nálgaðist yfirborðið.

Fyrir hádegi fimmtudaginn 26. október sáust skjálftar á mælum með upptök sín í Dyngjufjöllum og um 14:30 þann dag sá fólk á Norðausturlandi gosmökk  rísa  upp í stefnu á þau. Ljóst þótti að gos væri hafið í Öskju og héldu vísindamenn úr Reykjavík strax  af stað á leið norður og austur á bifreið, sem Guðmundur Jónasson, hinn þekkti öræfafari, stýrði. Komst leiðangurinn að eldstöðvunum að morgni laugardagsins 28. október og dvaldi fram eftir degi við rannsóknir og myndatökur. Segir ekki frekar af þeim leiðangri hér, enda hafa þátttakendur í honum sjálfir skráð frásagnir af þeirri ferð og eru þær tiltækar á fleiri en einum stað í myndum og máli.

En á þessum árum voru öræfaferðir orðnar talsvert vinsælar, og segja má að þær hafi hafist fyrir alvöru upp úr heimstyrjöldinni 1939 til 1945, enda komust landsmenn þá yfir fjölda torfærubifreiða, sem bandaríski herinn skildi hér eftir að stríðinu loknu. Ísland eignaðist sína fyrstu fjallafara og torfærubifreiðastjóra og nægir að nefna nöfn manna eins og Guðmundar Jónassonar, Egils Kristbjörnssonar og Páls Arasonar sem dæmi um þann hóp. Framan af munu það kannski fyrst og fremst hafa verið Reykvíkingar og Akureyringar, sem höfðu bæði fjárráð og aðgang að farartækjum, til að stunda þessar ferðir að marki. En í öðrum byggðum voru stöku menn, sem höfðu áhuga fyrir ferðum og náttúruskoðun, hafið lengri og skemmri könnunarferðir. Hér í Skagafirði voru ferðir um hálendið einkum bundnar við það sem leiddi af landbúnaðarnytjum, svo sem fjárleitum og grenjavinnslu. Þó fyrirfundust örfáir menn, sem höfðu yndi af því að kynnast náttúru landsins í návígi,og töfrum óbyggðanna og fjölbreyttum jarðmyndunum miðhálendisins. Ekki er á neinn hallað þótt nafn Ingólfs Nikodemussonar sé nefnt framar öðrum í þessum efnum.  Þessi hópur fór hinsvegar stækkandi, þótt hægt færi til að byrja með,  en einmitt á þessum árum eru bílferðir um hálendið héðan úr Skagafirði farnar að tíðkast, þótt bifreiðaeignin sem slík sem og gæði fararskjótanna væru nokkuð takmarkandi þáttur. Um það allt væri hægt að hafa mörg orð og kannski verða því gerð skil þótt síðar verði.

Það fór ekki hjá því að tíðindin af eldgosinu í Öskju kveikti fiðring í brjósti þeirra, sem einhver kynni höfðu haft af öræfaferðum hér um slóðir sem víðar. Eldgos hafði ekki verið hér á landi síðan Hekla gaus með látum árið 1947 og vafalaust voru  margir, sem ekki náðu að sjá það gos með eigin augum, fúsir til þess að leggja nokkuð á sig til að sjá hamfarirnar í Öskju. Strax daginn eftir að gosið hófst, ræddu þeir saman Ingólfur Nikodemusson og Guðmundur Helgason frá Tungu, sem var einhver duglegasti og reyndasti jeppabifreiðastjóri hér um slóðir á þessum tíma, um hvort tækt væri að gera leiðangur austur meðan gosið væri í algleymingi til að berja það augum. Ljóst var að kostnaður myndi nokkur af slíkri ferð og því þyrfti að dreifa honum á eins marga og rúm væri fyrir í bifreið Guðmundar. Varla var til að dreifa mörgum bifreiðum sem hentuðu til slíkrar farar og enn færri voru bifreiðarstjórarnir, sem kunnáttu og þekkingu höfðu á þessu sviði.  Áhugi reyndist vera fyrir hendi hjá fleirum en þeir höfðu gert sér vonir um í byrjun og þegar lagt var af stað voru farþegarnir orðnir fimm, auk bifreiðarstjórans. Þeir voru auk þeirra sem þegar hafa verið nefndir til sögunnar, Valur, sonur Ingólfs, þá nemi,  Gunnar Helgason, þá  starfsmaður Hituveitu Sauðárkróks,  Sigurður R. Antonsson,  vélsmiður og Stefán Pedersen, ljósmyndari. Á þessum árum var unnið á laugardögum og því dróst það fram eftir deginum að leggja af stað. Ferðabúnaður á þessum tímum var fábrotnari en nú tíðkast og voru menn ekki lengi að búa sig til ferðar.

Haldið var af stað frá Sauðárkróki eins og leið lá, um Varmahlíð og Öxnadalsheiði, í gegn um Akureyrarbæ, yfir Vaðlaheiði,  um Ljósavatnsskarð og áfram í Mývatnssveit. Eitthvað hafði ferðin gengið hægar en gert var ráð fyrir og þegar komið var að Reykjahlíð var orðið kvöldsett og urðu menn ásáttir um að leita eftir gistingu um nóttina og leggja síðan af stað aftur árla morguns. Í ljós kom að nýverið hafði hiti verið tekinn af þáverandi hóteli, það búið undir vetur og húsið orðið í raun óhæft til gistingar. Voru nú góð ráð dýr, en Pétur bóndi og hóteleigandi sá aumur á ferðalöngunum og bauð þeim upp á að sofa í stofunni á heimili sínu. Þáðu ferðalangarnir það með þökkum og bjuggust til náða. Árla morguns á sunnudeginum héldu þeir svo áfram ferðinni austur yfir Námaskarð og um Mývatnsöræfi allt austur að Hrossaborg þar sem vegamót eru og leiðin inn í Herðubreiðarlindir liggur til suðurs meðfram Jökulsá á Fjöllum lengst af. Einhver snjór hafði komið og gekk ferðin því hægar en menn hefðu vonast til. Ferðalangarnir höfðu nokkurn beyg af ánum á leiðinni sem fara þarf yfir, Grafarlandaá og Lindaá og reyndist sú síðarnefnda nokkur farartálmi, en hana hafði ekki lagt, enda lindarvatn í henni eins og nafnið bendir til og áhrifa uppsprettanna gætir í þeim mæli á vaðinu,  að ána leggur ekki nema í aftökum. Voru því skarir að henni og gekk seigt og fast að komast fram af skörinni að norðan og ekki síður upp að sunnanverðu. Allt gekk þetta þó um síðir og óku menn suður eyrarnar upp að hrauninu, sunnan lindanna. Gerðist nú vegurinn seinfarinn, sem hann er reyndar enn þótt mikið hafi hann verið lagaður síðan. Ekki er ferðalöngunum neitt sérstaklega minnisstætt frá þessum hluta leiðarinnar nema að þegar suður á vikrana kom, var færið talsvert farið að þyngjast. Einnig var veðurútlit orðið frekar ískyggilegt og byrjað að slíta snjó úr lofti.

Eftir allt sitt baks má nærri geta að þeir urðu undrandi þegar á vegi þeirra varð Moskovitsj fólksbifreið frá Akranesi á sumardekkjum, enda þekktust vetrardekk lítt eða ekki á þessum tíma og ekki hafði bifreiðarstjórinn keðjur með hvað þá önnur hjálpartæki. Klæðnaður hans var þesslegri að hann væri á leiðinni á dansleik í þéttbýli, dansskór, svört föt, hvít skyrta og bindi. Okkar menn losuðu fólksbílinn úr þeirri festu, sem hann var í og héldu síðan áfram með góð orð um að verða þeim að liði síðar ef með þyrfti. Það þyngdi stöðugt í lofti, snjókoman varð að hríðarveðri og það fór að blása af norðri og skafa. Skagfirðingunum tókst þó að komast að hrauntungunni, sem næst var leiðinni og staðnæmdust þar. Einhver deili þóttust þeir sjá að fleiri ferðalangar væru staddir innar og nær eldstöðvunum, m.a. voru þarna mannlausir bílar. Hraunið valt þarna fram með hægum en jöfnum hraða og mældist þeim framskrið þess um einn metri á mínútu hverri. Sérkennilegur dynur eða drunur fylgdu framskriði hraunsins og í stálinu glitti í rautt. Óþægilega heitt var þegar nær var komið og lagði hitann alllangt frá hraunstraumnum. Hraunstraumurinn var samt nægilega hraður til þess að snjórinn náði ekki að bráðna áður en hraunið lagðist yfir hann.  Hraunið var þegar búið að loka vegarslóðanum, og þar sem sögumenn okkar voru ekki kunnugir á þessum slóðum, það dimmdi hratt og skyggnið var orðið lélegt, afréðu þeir að lengra yrði ekki haldið að sinni, þótt freistandi hafi verið að reyna að komast lengra og að eldstöðinni. Vegna ókunnugleika síns gátu þeir ekki tekið áhættuna af því að aka utan slóða áfram innar eftir, því miklar líkur voru á að þeir myndu lokast inni og ekki komast lönd né strönd. Eftir að hafa tekið myndir og reynt að átta sig á aðstæðum, tóku þeir ákvörðun um að snúa við og halda aftur heim, því þeir höfðu þó séð hraunið renna og það var í sjálfu sér næg upplifun og í raun ógleymanleg. Í bakaleiðinni hittu þeir aftur á Moskovitsjinn og áhöfn hans og hjálpuðu þeim áleiðis til byggða. Veðrið skánaði þegar nær dró þjóðveginum og heimferðin varð tíðindalítil. Heim á Sauðárkrók komu þeir svo aðfararnótt mánudagsins, að sönnu nokkuð þreyttir og slæptir en ánægðir með upplifunina.

Því er svo við að bæta, að nokkrum dögum síðar átti einn úr þessum hópi, Sigurður R. Antonsson, þess kost að komast með í flugvél Tryggva Helgasonar frá Akureyri ásamt Inga Sveinssyni, vélsmið og Hákoni Pálssyni, þá rafstöðvarstjóra í Gönguskarðsárvirkjun, í björtu og fögru veðri að gosstöðvunum. Var sú ferð ógleymanleg með öllu og ekki síst sá hluti ferðarinnar þegar Tryggvi flaug lágflug yfir Tröllaskagann í björtu og fögru vetrarveðri og farþegarnir gátu virt fyrir sér úr návígi hið fjölbreytta landslag hans.

Þeir ferðalanganna, sem eftir lifa, komu saman á heimili eins þeirra fyrir nokkru og rifjuðu upp ferðalagið. Framanritað var skráð eftir frásögnum þeirra af þeim Ágústi Guðmundssyni og Þorkeli Guðbrandssyni. 

[Frásögnin var birt í 38. tbl. Feykis 2012 en er birt hér á Feyki.is á ný með góðfúslegu leyfi greinarhöfunda.]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir