Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur frestað lengur

Viktor Guðmundsson á Sauðárkróki er nýbúinn í verkfalli en hann starfar sem matreiðslumaður á togaranum Málmey SK1. Viktor heldur með Manchester United í enska boltanum og óhætt að segja að fjölbreytnin hafi verið allsráðandi hjá honum og bræðrum hans. -Við bræðurnir völdum allir sitthvert liðið. Tommi valdi Liverpool, Elli valdi Arsenal, Gummi Leeds og þá var Manchester United á lausu og ég valdi það, frekar einfalt.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Leit ekki vel út á tímabili en þetta er allt að koma. Ég held að við gætum náð öðru sæti, lámarkið er að vera hærra en Liverpool.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Þetta er allt á réttri leið. Þeir fjórir leikmenn sem við fengum fyrir tímabilið eru með þeim betri í liðinu í dag þannig að þjálfarinn kann að velja réttu mennina.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Já oft. Á marga vini sem halda með Liverpool og eru mjög tapsárir en þetta hefur aldrei endað illa samt.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -David Becham

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Já. Fór með elsta syninum, tengdapabba og mági mínum til London og sá liðið vinna Carling cup á Wembley árið 2010 á móti Aston Villa. Það var þvílík stemmning og tengdapabbi, sem er mikill Chelsea aðdáandi, missti sig í fagnaðarlátum og það besta er að við náðum þessu á myndband og spilum þetta reglulega fyrir hann.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já, treyju og trefil sem var keyptur á Wembley.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Ljómandi vel. Frumburðurinn heldur með liðinu og hefur farið með mér á leik. Svo er yngsta prinsessan farin að horfa með mér á leiki og æfa fótbolta.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, alls ekki. Má það?

Uppáhalds málsháttur? -Frestaðu því ekki til morguns sem þú getur frestað lengur!

Einhver góð saga úr boltanum? -Kannski ekki góð saga en eftirminnileg, þegar Ísak sonur minn spilaði ristarbrotinn(við vissum það ekki fyrr en eftir mótið) heilt fótboltamót og var markahæsti maður liðsins. Þvílík þrautseigja.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Margir hrekkir en ekkert sem má segja frá.

Spurning frá Tomma bróður: – Hvernig heldur þú að enska deildin endi í vor... Topp 5 í þeirri röð sem þú heldur að hún endi í?

Svar...

  1. Chelsea, (þá verður tengdapabbi glaður)
  2. Man.utd
  3. Man.city
  4. Arsenal (fyrir Ella bróðir)
  5. Liverpool

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Kristján Grétar Kristjánsson góður vinur minn og tapsár Liverpool aðdáandi

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hver er besti þjálfari Liverpool frá upphafi?

Áður birst í 8.tbl Feykis 2107.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir