Friðriki svarað

Það var athyglisvert viðtal við Friðrik G. Halldórsson, talsmann dragnótaveiðimanna í Feyki þann 22. nóvember 2017. Friðrik er búsettur á Seltjarnarnesi í kjördæmi sjávarútvegsdrottningarinnar. Fer hann frjálslega með sannleikann í tilsvörum og lætur vaða á súðum því hann er einn á miðunum með blaðamanninum og tilgangurinn helgar meðalið. Dragnótaveiðar hafa verið stundaðar hér á Skagafirði með hléum síðast liðin hundrað ár og hafa ætíð endað á sama veg, með ördeyðu og lokun fyrir dragnótaveiðum. Það hefur ætíð þurft mörg ár til að jafna sig aftur.

Hér áður fyrr voru veiðarfærin eins og vasaklútar miðað við þau ósköp sem eru í dag. Kasthringurinn hjá minni bátum er 4,5 km en hjá stærri bátunum tæpir 7 km, einnig eru bátarnir farnir að fara upp á talsvert harðan botn því þeir eru komnir með svokallaða hoppara á fótreipinu og höfuðlínuopningin er margir faðmar. Það þarf ekki sterkt ímyndunarafl til að sjá hvað gerist þegar kasthringurinn er dreginn saman með manilluvírum og dragnótin hífð um borð.

Dragnótaveiðar hafa ekki verið leyfðar í 7 ár á Skagafirði innan við eyjar og eru þekktar uppeldisstöðvar hér í firðinum fyrir ýmsar tegundir af fiski. Friðrik þarf ekki að halda því fram að ekki komi annað en stórfiskur í dragnótina, oft kemur fyrir að hún er seiluð af smásíld, loðnu og ýmsum smáseiðum en svo er annað mál hvað kemur í land. Með sínu vísinda- og fiskifræðilegu augnamiði lofar Friðrik aflabrögðum svona 1000 – 2000 tonn næstu árin, ekki efa ég það að hann gengur í ábyrgð og borgar hafnarsjóði ef einhver kíló vantar upp á veiðina. Ef svo færi að minna væri í gullkistunni en Friðrik er búinn að reikna út þá veit hann að þau skip sem stunda dragnótaveiðar á firðinum hafa vélar og geta siglt á önnur mið.

Það virðist fara mjög fyrir brjóstið á Friðriki að byggðarráð mótmælir opnun dragnótaveiða inn að Ósbrú sem er eðlilegt því byggðarráð hugsar um sitt fólk og vill búa sem best í haginn fyrir það. Hver trilla sem dregin er á land vegna ördeyðu á sjó heggur skarð í samfélagið, það eru fjölskyldur um hverja trillu. Einnig gæti skapast það umhverfi fyrir frístundaveiðibáta að ekki tæki því að fara á sjó, færi þá fljótlega að fækka bátum við bryggjuna og þar af leiðandi engin hafnargjöld greidd. Ekki má festast í því að rýna í kaldar tölur á blaði frá hafnarsjóði.

Ég læt þá feðga, Jón Bjarnason og Bjarna, sjá um að svara Friðriki um vísindarannsóknir á Skagafirði en það veit ég að í gegnum árin hafa rannsóknir Hafró byggst mest á líkum og ágiskunum og hefur stefna Hafró ekki alltaf verið beysin í gegnum árin. Í lok viðtalsins fer Friðrik aldeilis að láta þekkingarljós sitt skína á öldugangi og dragnótaveiðum og fullyrðir að þessar veiðar séu vistvænni en handfæri og línuveiðar og skaut hann undan sér lappirnar með þessum fullyrðingum og lýsir mikilli fáfræði á þessu málefni sem hann berst fyrir. Aftur á móti eru öfgarnar miklar og rökin lágkúruleg.

Ég er búinn að vera til sjós talsvert marga áratugi en svona málflutning og rök hef ég aldrei heyrt um áður og dæma þau sig sjálf.

Ragnar Sighvats
sjómaður.

Áður birst í 46. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir