Fyrstu göngurnar - Áskorendapenninn Ásmundur Óskar Einarsson Grænuhlíð

Ég fór í mínar fyrstu göngur á Auðkúluheiði árið 1998, seinni göngur, sem farnar eru eftir réttir til að smala því fé sem eftir hefur orðið eftir fyrri göngur. Við fórum saman við pabbi heitinn en hann hafði ekki farið í mörg ár og langaði til að líta á heiðina aftur.

Við vorum á fellunum sem kallað er fyrsta daginn í sól og góðu veðri, einhvern örlítinn feil gerðum við nú, fórum vestur í fjöll þegar fellunum lauk í stað þess að halda stefnu í Hveravelli, en það kom nú ekkert að sök. Í Hveravelli er alltaf gaman að koma, Gunna á Kúlu var matráðskona og það klikkaði nú ekki viðurgjörningurinn hjá henni, svo var farið í laugina og tekið lagið og sopið á fleyg, og sungið meira þegar inn var komið, Jóhann í Holti var gangnaforingi og ég gleymi því aldrei hvað hann söng fallega millirödd við lagið Ég vitja þín æska.

Daginn eftir var áfram haldið til leitar að fé, ég man nú ekki hvar við pabbi vorum á göngum þann daginn en gott var að koma í Áfanga í dagslok og fá heitt kakó hjá Gunnu og Döddu, en Dadda á Orrastöðum var til aðstoðar Gunnu þessar göngurnar, og svo veislumaturinn um kvöldið, grillaðir lambahryggir að hætti Gunnu. Þriðja og síðasta daginn hélt smölun áfram, ég man nú svo sem lítið hvernig hann gekk fyrir sig, hlýtur að hafa verið tíðindalítill, en út að heiðargirðingu komumst við og riðum svo niður í Hrafnabjörg og geymdum hestana þar til næsta dags.

Ég hef farið í margar seinni göngur síðan og það grípur mann alltaf sérstök tilfinning strax og maður er aðeins kominn fram á heiðina, loftið er tærara og frelsið felst í víðáttunni, ekkert áreiti. Ég hef nú oftast verið síðasta dag gangna einhverstaðar nálægt Blöndugili, þar er dásamlegt að ríða meðfram og horfa á hrikalegt gilið og náttúrufegurðina sem allt umlykur,  fara yfir Vallgilið og koma svo í Landsenda sem er út við girðingu niðri við gil, grasi gróinn og alveg sér á parti, það er eitthvað hrífandi við heiðina, einhver þrá til hennar sem aldrei dvín.

Með vind í fangið, fé og strangar glímur
fylgi rangri götu, þarna er á
syngjum langar seinni gangna rímur
svona þangað til að lokast brá.

Ég skora á Jón Gíslason á Stóra Búrfelli að koma með pistil.

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir