Gagnrýnin snýst eingöngu um verklag

Sveitarstjóri svaraði greinarkorni mínu um um breytingar á fjölskyldusviði og mannaráðningar á vegum sveitarfélagsins síðastliðinn mánudag. Þar segir hún mig ýja að því að starfsfólk sveitarfélagsins sé ekki hæft til að sinna sínum störfum. Það þarf talsverðan vilja til að skilja greinina á þennan veg. Þar er bent á að tilfærslur starfmanna án þess að auglýsa stöður og breytingar á skipuriti fjölskyldusviðs án þess að leggja fyrir fræðslunefnd eða byggðarráð, samræmast ekki góðum starfsháttum.

Það er verklagið og skortur á gegnsæi sem eru gagnrýnd, alls ekki einstaklingarnir sem störfin vinna. Tæplega er rýrð kastað á núverandi sveitarstjórn þegar gagnrýnt er að umrætt skipurit hafi ekki verið lagt fyrir hana eða nokkra nefnd á hennar vegum. Ekki er hægt að gagnrýna sveitarstjórn fyrr en búið er að taka málið til umræðu og taka afstöðu til þess eins og ábyrg sveitarstjórn kemur væntanlega til með að gera. Það má hinsvegar gagnrýna stjórnsýslu meirihlutans, sem leiddur er af framsóknarflokknum, að gera það ekki.

Vinnubrögðin sem gerð voru að umtalsefni sýna hversu nauðsynlegt það er að stjórnsýslan hér verði opnari og íbúar upplýstari á allan hátt. Skipulagsbreytingar, mannaráðningar og aðrar stórar ákvarðanir sveitarfélagsins eiga að vera teknar í opnu ferli en ekki bak við lokuð tjöld. Viðbrögð embættismanns sveitarfélagsins fyrir hönd meirihlutans í grein í Feykis gera ekki annað en staðfesta það.

Sveitarstjóri hvetur íbúa til að vera gagnrýna á rekstur sveitarfélagsins og er það vel. Það væri faglegast að taka slíkri gagnrýni uppbyggilega og án þess draga persónulegar ályktanir um þann sem rýnir til gagns.

Undirrituð og aðrir í VG og óháðum, vilja koma því vel til skila að gagnrýnin er á stjórnsýsluna og verklag hennar, gagnrýnin er engan veginn á persónulegum nótum.

Álfhildur Leifsdóttir

Höfundur skipar 2. sæti VG og óháðra

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir