Gamli góði vinur - Áskorendapenni Guðrún Þórbjarnardóttir, brottfluttur Skagstrendingur

Það góða við að eldast er lífsreynslan, maður róast og fer að skoða hlutina í öðru ljósi. Forgangsröðin verður önnur. Bernskan og vinir bernskunnar birtast manni í öðru ljósi heldur en áður.

Ég hef verið að hlusta á Mannakornsdiskinn – Gamli góði vinur – hann kallar fram ótal minningar. Yngri er maður svo sjálfhverfur og upptekinn af sér og sínum að annað fer í „geymslu“ en alls ekki „gleymsku“ það upplifir maður síðar.

Að upplifa 50 ára fermingarafmælið sitt, koma til baka í litla þorpið sitt og hitta gömlu vinina, þá kemur þetta allt aftur. Það er svo gott að finna tilfinningar frá bernskunni vakna finna væntumþykjuna til alls þess gamla. Hitta fólkið sem núna eru öldungar, fólkið sem að þá var á sínum bestu árum og það þekkir mann aftur.

Hitta gömlu vinina endurvekja kynnin, spyrja frétta á borð við; hvernig farnaðist þér og þínum? Finna gleðina með góðum fréttum, finna til með þeim slæmu. Hitta þá sem að voru börn en eru núna fullorðir í blóma lífsins. Skoða gamla skólann sinn og tala um kennarana. Rifja upp sögur og hlægja mikið. Ganga um kirkjugarðinn og minnast þeirra sem þar hvíla, margir hverjir úr daglegu lífi bernskunnar. Við áttum líka okkar Sölva Helgason.

Gaman er að koma í litla þorpið sitt aftur og sjá allar þær framfarir sem að þar hafa orðið á uppbyggingu allri – gott að allir fóru ekki í burtu. Það er svo gott að finna í hjartanu kærleikann til alls þessa gamla sem er þarna á sínum stað þrátt fyrir hálfrar aldar ævi og störf annarsstaðar.

Gamli góði vinur þú ert þarna enn eins og þú hefur alltaf verið.

Áður birst í 11. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir