Heilbrigðisþjónusta í Skagafirði kemur okkur öllum við

Bjarni Jónsson.
Bjarni Jónsson.

Góð og örugg heilbrigðisþjónusta skiptir Skagfirðinga sem og aðra landsmenn gríðarlega miklu máli. Í raun má segja að gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu ráði miklu um búsetu fólks. Gildir það jafnt um börn og barnafólk sem og eldri borgara okkar sem gjarna á efri árum þurfa að búa sem næst góðri læknisþjónustu. Við höfum átt því láni að fagna hér í Skagafirði að við Heilbrigðisstofnunina  vinnur frábært starfsfólk. Hinsvegar höfum við því miður þurft að horfa á bak heilu þjónustusviðunum frá Heilbrigðisstofnunni vegna niðurskurðar  og skipulagsbreytinga á landsvísu.  Í þeim hremmingum höfum við einnig  misst  vel menntað og hæft starfsfólk.

Samráð um heilbrigðisþjónustu

Forgangsröðun og framkvæmd heilbrigðisþjónustu í héraði er ekki einkamál stjórnvalda eða æðstu stjórnenda heilbrigðisstofnunarinnar eins og ráða má af skrifum nýráðins lækningaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. En hann lætur gamminn geysa fyrir hönd yfirboðara sinna á síðum Feykis. Ég  óska lækningaforstjóranum til hamingju með starfið og er þess fullviss að hann muni sinna vel þeim afmörkuðu verkefnum innan stofnunarinnar sem hann er ráðinn til. Þegar fæðingardeildinni var lokað á Sauðárkróki og fæðingarþjónusta ljósmæðra skert var það í andstöðu við meginþorra íbúa. Þegar hætt var starfi hjúkrunarfræðings á Hofsósi sem sinnti þjónustu á staðnum voru ég og fleiri því mótfallnir og fékk ég þeirri ákvörðun snúið við með inngripi þáverandi heilbrigðisráðherra, en því miður hélt það ekki til lengri tíma. Svona mætti lengi telja. Áður var stjórnum heilbrigðisstofnana ætlað að vera samráðsvettvangur til að samræma áherslur og forgangsröðun heimafólks og heilbrigðisyfirvalda. Með nýjum heilbrigðislögum frá 2003 var það ólukkuspor stigið að leggja niður sjúkrahússtjórnirnar í héraði. Þar með var skorið á tengsl og aðkomu heimamanna að stjórnun og forgangsröðun þessarar mikilvægu þjónustustofnunar.

Baráttan fyrir Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki

Þegar núverandi heilbrigðisráðherra var ljós andstaða heimamanna við að heilbrigðisstofnanir  í heimabyggð yrðu lagðar niður og inn í nýjar stærri stofnanir ákvað hann að „fresta sameiningunni til haustsins“. Svo hún illi ekki óþægindum í komandi sveitarstjórnarkosningum fyrir stjórnarflokkana. Í raun var búið að ganga frá málinu í fyrstu fjárlögum nýrrar ríkisstjórnar. Að því frumvarpi stóðu þingmenn og ráðherra sem áður höfðu staðið þétt með okkur Skagfirðingum að verja sjálfstæði og þjónustustig Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Að sögn heilbrigðisráðherra „Þá skipti ekki minnstu að með sam­ein­ingu myndi ákv­arðana­taka fær­ast í aukn­um mæli til heima­manna.“ Að ráðgjafanefnd fyrir Heilbrigðisumdæmi Norðurlands sem tilnefnt var í 4. nóvember sl. hafi ekki enn verið kölluð saman talar sínu máli í þeim efnum.

Þeim sem þurfa að lúta boðvaldi stjórnvalda er vorkunn

Það er ekki annað hægt en að vorkenni nýráðnum framkvæmdastjóra lækninga HSN  að vera settur í þá stöðu að verja óvinsælar breytingar og niðurskurð sem héraðið hefur sameinað barist gegn á undanförnum árum. Staðreyndin er því miður sú  að fulltrúar stjórnvalda geta ekki sagt við Skagfirðinga að þjónusta hafi ekki verið skert eða starfsfólki fækkað þegar raunveruleikinn blasir við hverjum manni. Fram kom hjá forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á fundi byggðaráðs nýverið að starfsfólki hafi haldið áfram að fækka frá því að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki var lögð niður sem sjálfstæð stofnun í heimabyggð, kemur það til viðbótar þeim tugum starfa sem áður voru horfin. Sveitarstjórnarfólk og íbúar í Skagafirði munu halda áfram að berjast fyrir öflugri heilbrigðisþjónustu í héraði og gegn frekari niðurskurði. Sú umræða verður ekki þögguð niður af heilbrigðisyfirvöldum með gelti fulltrúa þeirra í héraði á þá sem láta sig þjónustu og framkvæmd heilbrigðisþjónustu í Skagafirði máli skipta og þora að tjá sig um þau í ræðu og riti.

Á nýafstaðinni fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga lýstu einmitt landsbyggðarfulltrúar þungum áhyggjum yfir stanslausum skerðingum heilbrigðisþjónustu.  Er það ekki lýsandi staða að símsvörun heilbrigðisþjónstunnar á Sauðárkróki og annarra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni fari til Læknavaktarinnar ehf. í Reykjavík sem nú safnar að sér nýju starfsfólki til að vinna verkin.

Bjarni Jónsson
Sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra Skagafirði

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir