Hólar í hundrað ár

Frá Lndsmóti hestamanna á Hólum 2016. Mynd: ÓAB.
Frá Lndsmóti hestamanna á Hólum 2016. Mynd: ÓAB.

„Áhrif skólahalds á Hólum á samfélagsþróun: Frá fullveldi til framtíðar“ var yfirskrift ráðstefnu sem haldin var á Hólum nú um sumarmálin. Fjöldi fyrirlesara flutti ákaflega áhugaverð erindi á þessari tveggja daga ráðstefnu auk þess sem fulltrúar afmælisárganga brugðu birtu á veruna á Hólum hvert á sínum tíma. Hjalti Pálsson rakti svo myndasögu Hólastaðar síðustu hundrað árin en augljóslega er til mikið af heimildarefni þaðan af ýmsum toga.

Það sem vakti hinsvegar athygli mína öðru fremur var fálæti Skagfirðinga og nærsveitunga á þessari samkomu. Sem okkar helsti sögustaður, elsta skólasetur, háskóli, veigamikill vinnustaður og biskupssetur skyldi maður ætla að margir ættu þangað tengingar, hvað þá í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga þegar frambjóðendur vilja kynna sig og sín stefnumál og fræðast um stöðuna í sveitarfélaginu. Einn sveitarstjórnarmaður leit við stutta stund, einn starfsmaður sveitarfélagsins fylgdi menntamálaráðherra. Enginn úr skólasamfélaginu, enginn frá hestamannafélaginu, enginn frá ferðaþjónustunni, enginn frá SSNV, enginn alþingismaður!

Gott er að rifja upp að skömmu fyrir aldamót varð ákveðin verkaskipting á milli þáverandi bændaskóla á Hólum og Hvanneyri hvar Hólar fengu í sinn hlut að mennta fólk í hestamennsku, fiskeldi og ferðaþjónustu. Allt greinar sem ýmist höfðu beðið skipbrot eða voru tæplega séðar sem alvöru atvinnugreinar. En góður grunnur var lagður, námið síðar fært upp á háskólastig og vel menntuðu fólki er skilað út úr Hjaltadalnum. Á fáeinum árum hafa þessir atvinnuvegir sprungið út og ekki hvað síst orðið til þess að styðja við dreifðar byggðir með fjárfestingum og fagmennsku. Ekkert af þessu gerðist sjálfkrafa og stöðug varnarbarátta var og er enn í gangi um tilvist skólastarfsins. Umræður um flutning hluta námsins og sameiningu háskóla hafa ruggað bátnum reglulega, byggðar á misjöfnum forsendum.

Það hlýtur að vera hagur allra, en ekki sjálfgefið að hafa aðgengi að háskóla í heimabyggð þó hann þjóni vissulega ekki öllum menntasviðum. Með sama hætti er félagslegt bakland slíkrar stofnunar ákaflega mikilvægt. Einhver deyfð, eða sinnuleysi virðist í gangi. Kannski fór allt púðrið í hið glæsilega Landsmót hestamanna sem bætti skrautfjöður í hatt Hólastaðar og ekki síður Skagfirðinga allra. Er hægt að finna einhverja skýringu? Hafa forsvarsmenn Hólastaðar ef til vill gleymt að viðhalda tengingunni við grasrótina í héraði? Eða sér grasrótin ekki þau tækifæri sem felast í því að hafa háskóla í túnfætinum. Blundar ef til vill einhver togstreita á milli þéttbýlis og dreifbýlis hér líka?

Kannski er hreint engu um að kenna.... Mögulega var veðrið bara of gott á sumardaginn fyrsta eða fólk á ferðalögum. Svo er þetta ef til vill líka bara raus í gömlum Hólamanni sem sér í hillingum endurminninganna fjölda fólks streyma heim að Hólum þegar eitthvað stóð til. En það var líka fyrir tíma Facebook.

Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir