Hótel hér, hótel þar, hótel allsstaðar

Ómar Bragi Stefánsson.
Ómar Bragi Stefánsson.

Hótel spretta upp eins og gorkúlur um þessar mundir, sérstaklega á suðvestur horni landsins.  Sem betur fer rís eitt og eitt hótel á landsbyggðinni enda virðist þörfin vera mikil.  Umræða um hótelbyggingu á Sauðárkróki hefur verið töluverð undanfarnar vikur og sitt sýnist hverjum. 

Einhverjir vilja byggja á Flæðunum, sem hugnast mér alls ekki illa, aðrir vilja byggja á gamla bílaverkstæðisreitnum, enn aðrir vilja byggja hótel norðan í hæðinni við Áshildarholt og svo einhverjir vestan við fjölbrautaskólann þar sem kofabyggðin hefur verið í áraraðir.  Sjálfsagt eru fleiri staðir í umræðunni sem ekki ólíklega deyr út innan einhverra vikna og ekki verður neitt af neinu

En þurfum við að byggja hótel hér á Sauðárkróki?  Er ekki nær fullbúið hótel í hjarta bæjarins með öllu sem til þarf.  Ég er að tala um heimavist FNV.  Vissulega er þetta fína húsnæði nýtt sem hótel á sumrin en á veturna hef ég trú að að nýtingin sé ekki góð og mín tilfinning er sú að ástandið eigi ekki eftir að skána.  Ég vil sannarlega að FNV blómstri og eflist en kennsluhættir breytast hratt og heimavist í dag er ekki það sama og heimavist fyrir einhverjum áratug.

Væri ekki ráð að kaupa heimavistina af ríkinu.  Byggja eina álmu til vesturs og stækka hugsanlega um 20 – 40  herbergi eða svo.  Þá væri þarna komið stórt og glæsilegt hótel.  Til staðar er gott eldhús og veitingasalur sem væri ekkert mál að stækka til suðurs. 

Síðan væri hægt að gera samning við FNV um þá nemendur sem þurfa húsnæði yfir veturinn að þeir fengju inni á hótelinu.  Það væri örugglega hægt að reka þetta saman og nýta húsnæðið mun betur.

Ómar Bragi Stefánsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir