Húnvetningur að norðan

Áskorendapistill - Sesselja Guðmundsdóttir brottfluttur Húnvetningur

 „Ég er að norðan.“  „Frá Agureyri?“ „Nei, ekki frá Akureyri, ég er Húnvetningur.“ 

Já, ég er Húnvetningur þó ég hafi meira en hálfa ævina búið á höfuðborgarsvæðinu.  Meira en hálfa ævina!  Undarlegt, en engu að síður satt.  Ég, sveitastúlkan úr Vatnsdalnum, vildi mennta mig en nám að loknum grunnskóla var ekki í boði á heimaslóðum. Ég fór að heiman - og síðan enn lengra - og kom ekki aftur nema til að heimsækja fjölskylduna. 

Mörgum árum, tveimur börnum og þremur háskólagráðum seinna er ég hætt að velta því fyrir mér af hverju ég hafi ekki flutt aftur á æskuslóðirnar.  Ég veit að þær eru á sínum stað og ég get ennþá farið þangað í heimsókn.  Margir sem ég þekkti eru að vísu farnir, aðrir eru þar enn, og margt hefur breyst, sumt meira að segja til hins betra. 

Breytingar eru nefnilega oft jákvæðar.  Þær geta verið ógnvekjandi um stund, hrint okkur harkalega út fyrir þægindarammann og fengið okkur til að endurmeta allt sem við héldum að við vissum upp á hár.  Breytingar geta orðið til þess að við uppgötvum hæfni sem við vissum ekki að við byggjum yfir, eða að við lærum eitthvað alveg nýtt og spennandi.  Breytingar, öðru nafni þróun, eru hluti af lífinu og án þeirra ríkir stöðnun.  Þær eru oft krefjandi, erfiðar og þreytandi, en þeirra vegna kvikna líka oft nýjar hugmyndir, ný tækifæri verða til og skapandi hugsun blómstrar. 

Innan þægindarammans er allt svo öruggt og kunnuglegt, en þar er auðvelt að verða værukær og svæfa nýjar hugmyndir í stað þess að skoða þær með opnum huga.  Hugmyndir sem jafnvel gætu orðið okkur sjálfum og öðrum til góðs.  Stundum verða breytingar svo hægt að við tökum ekki eftir þeim fyrr en löngu síðar.  Þannig er það gjarnan þegar við sjálf breytumst, við áttum okkur ekki á því fyrr en eftir á.  Einnig þegar samfélagið í kringum okkur þróast, allt í einu tökum við eftir því að mannlífið hefur breyst. 

Þegar ég kem á æskuslóðirnar tek ég eftir breytingum sem orðið hafa síðan síðast er ég var þar.  Nýtt fólk, ný eða breytt hús, ný fyrirtæki, og annað er kannski horfið. 

Ég fer heim þegar ég fer norður í Vatnsdal og ég fer líka heim þegar ég fer til baka.  Ég verð alltaf Húnvetningur þrátt fyrir allt, það breytist ekki.

 Ég skora hér með á Hallbjörn Reyni Hallbjörnsson frá Blönduósi að taka við pennanum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir