Inga Björk gefur kost á sér í 1.-2. sæti hjá Samfylkingunni

Inga Björk Bjarnadóttir
Inga Björk Bjarnadóttir

Inga Björk Bjarnadóttir gefur kost á sér í 1. –2. sæti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram í forsíðuviðtali við Ingu í Fréttablaðinu í dag. Inga Björk er fædd árið 1993 og uppalin í Borgarnesi en hefur verið búsett í Reykjavík síðastliðin ár þar sem hún stundar meistaranám í listfræði við Háskóla Íslands. 

Inga, sem er í hjólastól, hefur verið áberandi í réttindabaráttu fatlaðra um skeið, þar á meðal í umræðunni um ofbeldi gegn fötluðum konum. Hún hlaut þar að auki viðurkenningu Öryrkjabandalags Íslands árið 2012 fyrir baráttu sína fyrir bættu aðgengi í Borgarbyggð. Þá hefur Inga setið í nefnd á vegum Velferðaráðuneytisins um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk undanfarin misseri. Í viðtalinu segir Inga byltingu vera í farveginum í málefnum fatlaðra, að ímynd fatlaðs fólks sé að breytast og umræðan um fordóma, staðalímyndir og ofbeldismenningu sé að opnast. 

Inga hefur legið á spítala síðastliðinn mánuð vegna lærbrota á báðum fótum og segist hafa orðið vitni af því mikla álagi sem lagt er á starfsfólk spítalans. Þrátt fyrir þetta reyni stjórnmálamenn að berja sér á brjóst og segja Íslendinga eiga eitt besta heilbrigðiskerfi í heimi. Það hljóti að vera forgangsatriði að bæta aðbúnað og starfsumhverfi í heilbrigðiskerfinu á næsta þingi. Þá telur Inga mikilvægt að rífa niður þá múra sem reistir hafa verið í menntakerfinu á kjörtímabilinu og að skapa samfélag að norrænni fyrirmynd þar sem menn hafi jöfn tækifæri með því að jafna byrðarnar. Eðlileg krafa sé að öryrkjar, aldraðir og ekki síður ungt fólk geti framfleytt sér.

Inga hóf stjórmálaþátttöku sína á unga aldri þegar hún barðist fyrir bættu aðgengi í Borgarbyggð og fannst stjórnmálin tilvalinn vettvangur til þess að hafa áhrif.

Hún segir mikilvægt að fá fólk inn á þing sem hafi reynt á eigin skinni samskipti við kerfið, og hafi þurft að berjast fyrir réttindum sínum. Inga hefur tekið virkan þátt í stjórnmálastarfi frá 17 ára aldri og hefur setið í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar frá byrjun árs 2015 og í framkvæmdastjórn Ungra jafnaðarmanna frá árinu 2014. Inga vermdi 6. sæti lista Samfylkingarinnar í Alþingiskosningunum 2013. 

Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir