Íslenskur júní

Þuríður Harpa Sigurðardóttir.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Takk fyrir, það er fátt sem sameinar þjóðina betur en íþróttaafrek á erlendri grund, nema kannski náttúruhamfarir hér heima fyrir. Þá brýst fram tilfinningaveran sem blundar  undir hörðum skráp sem aldagömul tilvera hefur búið okkur, og það má. 

Mér finnst ég lifa svo merkilegan tíma núna, Ísland á leið að keppa alvöruleik við England í fótbolta og flóra forsetaframbjóðenda aldrei verið fjölbreyttari. Í bakgrunni er hrunið og eitthvað nýtt hefur sprottið fram í þjóðarvitundinni. Við spáum í nýja stjórnarskrá, við viljum sjá nýjar áherslur í pólitík, við viljum mannúð og virðingu fyrir náttúrunni og því sem hún elur af sér. Samt erum við hrædd við breytingarnar, þekkjum hvað við áttum og þorum ekki alveg þessu nýja sem allavega ég skynja í loftinu, einhverja undiröldu. 

Mér finnst gaman að skoða forsetaframboðsflóruna, renni yfir fólk sem mér finnst áhugavert, horfi með öðru auganu á hina. Nenni t.d. ekki að eyða miklum tíma í Davíð Oddsson, eða Ástþór Magnússon, (annar tilheyrir liðnum tíma og hinn er of reiður), en hef undanfarið beint augum og eyrum að Elísabetu Jökulsdóttur. Mér finnst áhugavert það sem hún segir, svona þegar hnittin tilsvör og brandarar fá frí, ekki það að ég hef verulega gaman af því líka. Hún fræðir mig, ég finn til samkenndar og mér finnst það engin vitleysa sem hún leggur á borð fyrir mig.

Forseti sem fengi hláturskast og færi yfir strikið, er skemmtilegt en svo segir hún ýmislegt sem er svo brilljant t.d.  -Okkur finnst ekki nóg að eiga ofboðslega mikið af lífsreynslu, við þurfum að eiga eitthvað meira, eigum aldrei nóg, við þurfum að eiga menntun, stærri hús eða utanlandsferðir ...En við eigum líf okkar, við eigum ævi okkar og það er merkilegt. Hún sagði líka; Áföll eru þannig að þau gagnast manni alla ævina, maður er bara ríkur af þeim alla ævina. - Þetta vakti mig til umhugsunar, ég hef aldrei heyrt eða hugsað um áföll á þennan hátt, að þau gagnist manni að maður sé ríkari vegna þeirra. Það er sannleikur í þessu, hún er venjuleg manneskja, rík af lífinu. 

Það sem hún gerir í sínu framboði er að varpa ljósi á aðra hluti en venjulega eru til umfjöllunar, hún fer út fyrir kassann, talar um skáldskap og menningu, fátækt og ofbeldi, geðveiki og alkahólisma, börn og ungt fólk, náttúruáhyggjur, loftslagsbreytingar, nýja stjórnarskrá, hlutverk alþingis og fleira. Hún er hrein og bein, felur ekkert, segir það sem henni finnst án þess að setja það í uppskrúfað orðfæri, enda er hún nú skáldið í hópnum. 

Hvort sem hún vinnur eða tapar forsetakosningum, hvort sem Ísland vinnur eða tapar gegn Englandi, hvað sem verður, þá er ég ríkari í dag af gleði yfir samlöndum mínum sem stilla þjóðernisstolt mitt á hæstu gráðu og vegna orða  Elísabetar sem fá mig til að hugsa ... jafnvel út fyrir boxið, og setja smá glitur inn í vitund mína.  

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir