Íþróttasamfélagið Skagafjörður

Ég vil byrja á því að þakka íbúum Skagafjarðar fyrir stuðninginn við okkur strákana í Tindastól á nýliðnu tímabili. Það er ekki sjálfgefið að fólk hafi áhuga á því sem maður fæst við og ekki hægt annað en að vera auðmjúkur yfir stuðningnum og áhuganum sem við höfum fundið fyrir í vetur og í vor.

Fyrir samfélag eins og Skagafjörð liggur grunnurinn að árangri og samstöðu líkt og náðist í vetur í öflugu barna- og unglingastarfi í héraðinu. Mikilvægi þess að börn og ungmenni eigi þess kost að stunda íþróttir verður seint metið til fjár. Fornvarnargildi íþrótta- og æskulýðsstarfs hefur sannað sig svo um munar, og að auki er það mín reynsla að íþróttir geta gefið ungmennum ýmis verkfæri til að fóta sig í lífinu. Má þar nefna getuna til að starfa í hóp, vinnusemi og að læra af mistökum sínum. Því skiptir öflugt íþróttastarf miklu fyrir samfélag eins og okkar.

Við Framsóknarmenn viljum auka þátttöku barna og unglinga í íþróttastarfi um allt hérað og höfum sýnt það í verki með þeim fjölmörgu framkvæmdum sem ráðist hefur verið í og boðaðar hafa verið til að bæta íþrótta- og æskulýðsstarf í héraðinu. Má þar nefna uppbyggingu á gervigrasvelli á Sauðárkróki, nýju parketgólfi í íþróttahúsinu á Sauðárkróki, fyrirhugaðri uppbygginu á útikörfuboltavelli í Varmahlíð og á Hofsósi, nýrri skíðalyftu í Tindastóli, endurbótum á sundlaug Sauðárkróks, nýrri rennibraut við sundlaugina í Varmahlíð, og fyrirhugaðri uppbyggingu á íþróttahúsi á Hofsósi.

Á síðasta kjörtímabili voru gerðar breytingar á reglum sveitarfélagsins um hvatapeninga og þær rýmkaðar. Tilgangurinn með því var að koma betur til móts við þann kostnað sem af því hlýst, að börn stundi fleiri en eina íþrótt.

En lífið er að vera í stöðugri framför, og á stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir komandi kjörtímabil er áfram lögð mikil áhersla á íþrótta- og æskulýðsmál. Sem dæmi þá viljum við hækka hvatapeninga umtalsvert strax í upphafi kjörtímabilsins. Æfingagjöld í sveitarfélaginu eru lág í samanburði við önnur sveitarfélög og við þurfum að tryggja að svo verði áfram. Samhliða því að hvatapeningar verða hækkaðir þarf sveitarfélagið að gera samning við UMSS um æfingagjöld þannig að hækkun hvatapeninga muni ekki leiða af sér hækkun æfingagjalda. Það er forsenda þess að hækkun hvatapeninga skili sér til íbúa sveitarfélagsins. Við viljum einnig endurskoða styrki sveitarfélagsins til UMSS til að gera íþróttafélögum betur kleift að sinna iðkendum í þeim fjölmörgu íþróttagreinum sem boðið er upp á.

Sveitarfélagið Skagafjörður er íþróttasamfélag og á að vera svo áfram.

Með kveðju
Axel Kárason

Höfundur skipar 4. sæti á lista Framsóknarflokksins í Svf. Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir