Ja hérna hér! Áskorandi - Anna Scheving á Laugarbakka.

Nokkuð er síðan pistill frá áskorendapenna í Húnaþingi vestra hefur birst í Feyki en keðjan slitnaði nokkru fyrir áramót. Náði umsjónarmaður þessa þáttar að herja á Önnu Scheving að koma pennanum af stað aftur.

Ja hérna hér!

Hvað á ég nú að gera með þetta?, var mín fyrsta hugsun þegar ég sá póstinn frá  honum Palla. En kæru lesendur Feykis, þið verðið bara að taka viljann fyrir verkið. Æfi mín byrjaði austur á Reyðarfirði en þar sleit ég barnsskónum og nú er ég hérna á draumastaðnum Laugarbakka í Miðfirði, með viðkomu í Hafnarfirði en þangað fór ég með mínum elskulega eiginmanni 16 ára. Þaðan lá leið okkar aftur austur og svo til Vestmanneyja og þar eignuðumst við okkar elskulegu syni. Gerðumst svo flóttafólk, áttum heima þar þegar tók að gjósa.

Svo var það höfuðstaður norðurlands Akureyri. Vorum þar í góðu yfirlæti í 24 ár. Ég sem póstur og hann tækjamaður hjá Vegagerð Ríkisins. Þar ólum við upp synina sem var mjög gott. Vorum þar þegar hringvegurinn opnaði og annan eins gestagang hef ég ekki upplifað. Fyrsta sumarið sem hann var opinn, tókum við á móti 89 næturgestum, fyrir utan þá sem komu svona rétt í kaffi. Það má eiginlega segja að við höfum fengið okkur fullsödd af gestum það árið.

En 1997 fluttum við á Hvammstanga og vorum þar í 18 ár. En nú erum við komin í algera paradís sem heitir Laugarbakki og er í Miðfirði. Þvílíkur dýrðarstaður sem það er og gott fólk sem þar býr. Nú þegar að við erum bæði hætt að vinna þá er ekki hægt að hugsa sér neitt betra. Kveðja Anna.

Ég skora á Guðmund Jónsson að koma með pistil.

 

Áður birt í 10. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir