Lífsgæði í dreifbýli -- Heitt vatn og ljósleiðari – baráttumál Framsóknarflokksins

Það er öllum ljóst sem komið hafa að umræðu um búsetuskilyrði og atvinnumöguleika í dreifbýli að aðgengi að heitu vatni og góð nettenging eru lykilatriði.  Þessi atriði skipta máli hvort sem verið er að byggja upp atvinnustarfsemi á viðkomandi jörð (svæði), eða að setja niður íbúðarhús á lóð. 

Frá því að ég fór fyrst að skipta mér af sveitarstjórnarmálum hef ég haft mikinn áhuga á að efla dreifbýlið í Skagafirði með jöfnun lífsgæða.  Hluti af því er að hitaveituvæða öll svæði sem mögulegt er að leggja heitt vatn til, en öflugt og fjölbreytt samfélag í Skagafirði byggir á sterku dreifbýli og sterku þéttbýli.

Ef litið er á söguna þá hefur Framsóknarflokkurinn nú verið í meirihluta við stjórnun sveitarfélagsins í samfellt tólf ár og því verið í góðri stöðu til að vinna að framgangi veitumála í Skagafirði.  Rétt er samt að halda því til haga að öll þau ár sem ég hef setið í Veitunefnd hefur samstarf nefndarmanna verið gott en nú síðustu fjögur árin hefur Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur leitt þá vinnu.

Áhersla á dreifbýlið

Á síðustu tólf árum er búið að gera kraftaverk í hitaveituvæðingu dreifbýlis og bara á síðustu fimm árum hefur verið lögð hitaveita um Hegranesið vestanvert, í Hofstaðarpláss, um Fljótin og nú síðast í Lýtingsstaðarhrepp.  Yfir 90% íbúa í Skagafirði hafa í dag möguleika á heitu vatni og það er einsdæmi á Íslandi í sveitarfélagi sem er jafn stórt landfræðilega og Skagafjörður er.   Frá árinu 2005 hefur Sveitarfélagið Skagafjörður lagt tæpar 800 milljónir í lagningu á heitu vatni um dreifbýli Skagafjarðar, þar af yfir 400 milljónir frá árinu 2013.  Áhersla okkar á eflingu búsetuskilyrða í dreifbýli er augljós.

Verkefninu er hins vegar ekki lokið en það er stefna okkar að klára á næstu fjórum árum að leggja heitt vatn um þau svæði í Skagafirði sem raunhæft er að leggja hitaveitu um. Þessi svæði eru Óslandshlíð með tengingu í Deildardal ásamt Hóla- og Viðvíkursveit, Hegranesið vestanvert, Efribyggð í Lýtingsstaðarhreppi og hluti Reykjastrandar eða frá Veðramóti að Fagragerði. Eftir að framkvæmdum lýkur á þessum svæðum munu meira en 95% íbúa Skagafjarðar hafa aðgang að hitaveitu
Framkvæmdaráætlun frá 2014 gerði ráð fyrir að lagning hitaveitu um Óslandshlíð ásamt Hóla- og Viðvíkursveit yrðu kláruð með heitu vatni úr Hrollleifsdalnum en þar sem vatnsmagn þar hefur ekki reynst eins mikið og vonir stóðu til hefur orðið að endurskoða þær áætlanir. Engu að síður viljum við klára verkefnið á næstu fjórum árum.  Af þessum minni svæðum þá er Hegranesið vestanvert efst á blaði og raunhæft að leggja um það heitt vatn árið 2019. Um leið mætti byrja á lagningu hitaveitunnar um Hóla- og Viðvíkursveit en það svæði verður að taka í áföngum og framkvæmdarhraðinn mun ráðast af niðurstöðum álagsmælinga sem nú standa yfir á borholunum í Hrollleifsdal.  Samhliða því að taka Hóla- og Viðvíkursveitina í áföngum næstu fjögur árin er hægt að taka með Efribyggð og Reykjarströnd.

Jöfnun kostnaðar og lífsgæða
Kostnaður við hverja heimtaug er mismunandi eftir svæðum.  Engu að síður hefur það verið og verður áfram stefna okkar að það heimtaugagjald sem notað hefur verið í Hegranesi, Fljótum og nú í Lýtingsstaðarhreppi verði það sama áfram þó svo að þau svæði sem eftir eru verði dýrari í framkvæmd en þau sem búin eru.

Þegar búið verður að hitaveituvæða þau svæði sem hægt er standa eftir nokkrir tugir lögheimila á svæðum sem ekki munu eiga kost á heituvatni vegna t.d. vegalengda frá borholu eða hæðamismunar. Til að jafna þeirra stöðu viljum við að þessi lögheimili fái fjárhagsstuðning, allt að 800.000 til kaupa á annarskonar upphitunarbúnaði eins og t.d. varmadælu.  Með þessu er sveitarfélagið að ganga eins langt og kostur er í að jafna búsetuskilyrði íbúa héraðsins.

Ljósið í Skagafirði
Þegar sveitarfélögum á Íslandi stóð fyrst til boða árið 2016 að taka þátt í verkefninu „Ljósleiðaratengt Ísland“ var ákveðið að Sveitarfélagið Skagafjörður myndi taka þátt í því af fullum krafti og var framkvæmdin sett í hendur Veitunefndar.

Við mótuðum strax þá stefnu að allir íbúar í dreifbýli skyldu greiða sama inntökugjald, eða 250.000 kr á tengingu þrátt fyrir að kostnaður við hverja tengingu yrði mismunandi eða frá 700 þúsund til 3 milljónir.  Hvað stór hlutur sveitarfélagsins verður í þessum framkvæmdum þegar upp er staðið liggur ekki fyrir en líklegt er að hann verði að minnsta kosti um 40-50 milljónir, háð meðal annars endanlegri aðkomu ríkisins að verkefninu.  Stefna okkar Framsóknarmanna er að klára að leggja ljósleiðara um allt dreifbýli Skagafjarðar fyrir árslok 2020 en nú þegar er hluti búinn og stór hluti er í vinnslu og klárast á þessu ári.  Þau svæði sem ekki verða kominn með heitt vatn árið 2020 fá því ljósleiðaratengingu á undan heita vatninu.

Þessu öllu og mörgu öðru munum við fylgja eftir á komandi kjörtímabili til að gera Skagafjörð sem heild að sterkara samfélagi.  Kjósum Framsóknarflokkinn á kjördag.

Einar E. Einarsson

Skipar 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir