„Maður á að segja takk!“

Ekki hef ég tölu á því hvað hún ástkær móðir mín sagði þetta oft við mig á uppvaxtarárunum. Ekki að ástæðulausu vill hún eflaust meina. En fyrir þetta er ég þakklátur, afar þakklátur. Þetta gekk hægt en að lokum varð til sæmilega kurteis maður, ég. Forvitinn hef ég ávallt verið, mismikið þó, en að meðaltali svolítið yfir meðaltali.

Ég er hræddur um að maður missi af miklu sem barn ef maður er ekki forvitinn um umhverfið sitt og hvernig hlutirnir virka. Sumt verður maður að komast að "the hard way" eins og maðurinn sagði. Brennt barn varar sig á eldinum sagði einhver líka, ekki að ástæðulausu.

Um hvað er pistlahöfundur að tala hlýtur einhver að spurja, jú þetta tvennt á auðvelt með að spinnast saman. Menn ganga jafnvel svo langt að segja að þetta tvennt einkenni mannskepnuna. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að Maðurinn er sú dýrategund sem er ríkjandi á jörðinni en ekki kindin, hún er ekkert voðalega kurteis.

Forvitnin hefur fært okkur allmargt. Öll þessi þekking sem við eigum svo auðvelt með að komast í á internetinu byrjaði með forvitni hjá einhverjum einstakling. Rannsóknir á jörðinni og í geimnum byrjar með því að einhver var að springa úr forvitni. Með kurteisi hefur okkur tekist að fara út í geim og rannsaka hitt og þetta. Ef ekki væri fyrir kurteisi værum við líklega í deilum heima fyrir og hefðum ekki tíma til að fara út í geim.

En aftur heim. Í heimahagana, nánar tiltekið Hofsós. Um miðjan tíunda áratug síðustu aldar voru frekar snjóþungir vetur. Þarna eignaðist ég mína fyrstu tölvu. Þvílíkur gripur sem það var, það voru skemmtilegir tímar. Forvitnin dreif mig áfram í að reyna að skilja hvernig þetta apparat virkaði. Ekki var hægt að vera úti vegna veðurs heilu dagana þannig að þetta dundaði maður sér við.  Ekki nennti ég að hanga í tölvuleikjum, það er ekki hægt að opna þá og skoða. Þarna var framtíð mín ráðin. Hún var reyndar ráðin þegar móðir mín barði kurteisi inn í kollinn minn í árdaga.

Með forvitni og kurteisi að vopni er hægt að komast yfir furðulegustu þekkingu og  eignast hinu skrítnustu vini. Undirritaður hefði líklegast komist stutt í sinni starfsgrein ef ekki hefði verið fyrir forvitni og kurteisi.

Ég vil þakka frænda mínum og vin Stefáni Gestsyni yngri frá Arnarstöðum að gefa mér tækifæri til að koma orðum í þetta frábæra blað. Ég skora hér með á Ægir Finnsson frá Hofsósi að koma með næsta pistil.

Góðar stundir.

Viðar Örn Línberg kerfisstjóri frá Hofsósi.

Áður birst í 1. tbl. Feykis  2017 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir