Menningarveisla fyrir börn og fullorðna í Miðgarði

Flottur hópur skagfirskra listamanna. Myndir: Laufey Haraldsdóttir.
Flottur hópur skagfirskra listamanna. Myndir: Laufey Haraldsdóttir.

Á dögunum var boðað til viðburðar í Menningarhúsinu Miðgarði undir yfirskriftinni „Frá Ara til Aladdín“ – hin lögin. Um var að ræða hóp skagfirsks tónlistarfólks á öllum aldri, sem buðu upp á vinsæl „barnalög fyrir börn og fullorðna“. Fyrir ári síðan stóð sami hópur fyrir tónleikum á svipuðum nótum við góðar viðtökur, og að þessu sinni naut hópurinn aðstoðar barnakórs sem söng með honum nokkur lög. Kórinn var skipaður krökkum úr 4., 5. og 6. bekk í Varmahlíðarskóla.

Líkt og vænta mátt var mikið fjör á sviðinu þennan eftirmiðdag í Miðgarði. Forkólfurinn Gunnar Rögnvaldsson á Löngumýri fór á kostum í „prumpulaginu“ við hlátrasköll barnanna í salnum, Íris Olga Lúðvíksdóttir brá sér m.a. í hlutverk afans sem gabbaði barnabörnin með ýkjusögum af sjálfum sér. Jón Hjálmar Ingimarsson og Hafsteinn Máni Björnsson sungu Emil af svo mikilli sannfæringu að ætla hefði mátt að drengurinn knái frá Kattholti væri mættur með tvífara sínum. Sigvaldi og Dagný, börn Gunnars, sýndu að eplið fellur sjaldan langt frá eikinni og heilluðu áhorfendur með öruggri framkomu og fallegum söng. Það gerðu einnig hinar hæfileikaríku systur Sóla og Malen Áskelsdætur, og ungu stúlkurnar Rannveig Stefánsdóttir og Þórgunnur Þórarinsdóttir, sem báðar hafa stimplað sig rækilega inn í hóp fjölhæfra héraðsbúa.  

Í bakvarðasveit söngvaranna var hljómsveit Stefáns Gíslasonar, þar sem hann sjálfur spilaði á píanó, Einar Þorvaldsson á gítar og bræðurnir Margeir og Jóhann Friðrikssynir á bassa og trommur.

Óhætt er að segja að tónleikarnir hafi verið hin besta fjölskylduskemmtun, þar sem framlag hvers og eins naut sín vel, en heildarútkoman var þó stærri en summa þeirra allra. Um leið og ég vil þakka fyrir góða stund í Miðgarði, vil ég óska listafólkinu, bæði reyndum og upprennandi, alls hins besta í framtíðinni.

Laufey Haraldsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir