Minningar frá skíðasvæðinu

Áskorendapistill Söru Bjarkar Sigurgísladóttur

Árið 2008 flutti ég frá náttúruperlunni Skagafirði til menningarbæjarins Árósa í Danmörku. Á þeim tíma þráði ég að kynnast bæjarlífinu, menningunni, læra reiprennandi dönsku og leggja stund á læknisfræði við Háskólann í Árósum. Óskir mínar voru ekki lengi að uppfyllast og háskólaárin voru alveg frábær tími. Hugurinn leitaði aftur á móti oft í Skagafjörðinn og gerir það enn. Enda eru aðal áhugamálin og eru enn þau sömu og árið 2008, fjallganga og skíðasport. Og já, já, auðvita þurfti ég að velja Danmörku, þar sem hæsta fjallið er fjórfalt minna en Molduxi.

Skíðasvæði Tindastóls er það skíðasvæði sem hefur verið mest opið í vetur á öllu landinu. Skíðaiðkun skipaði stórann sess á uppvaxtarárum mínum í Skagafirði. Man ég vel eftir gamla skíðasvæðinu. Diskalyftan þar sem vírinn var annaðhvort velgrafinn undir snjó eða lengst upp í lofti. Maður var því ýmist kengboginn eða hékk eins og þvottur til þerris á vírunum. Þar lærði ég að skíða, tók lyftuna upp á topp og brunaði niður.

Í byrjun treysti ég á að pabbi myndi grípa mig þegar ég kæmi niður, enda ekki búin að læra að stoppa. Eftir góðan skíðadag var ekkert betra en heitt kakó og skúffukaka með rjóma í skálanum. Í minningunni stóð gamla skíðasvæðið alltaf fyrir sínu. Vegna snjóleysis fór opnunardögum fækkandi, þá var oft lagt í ferðir lengra upp í fjall með troðara eða snjósleðum. Meðal annars á svæðið þar sem skíðasvæðið er núna. Þessar ferðir voru ævintýralegar og þegar nýja skíðasvæðið var opnað var draumurinn loksins orðinn að veruleika. Glæný lyfta, löng brekka með miklum bratta efst, og aflíðandi breiðum flata í lokin. Á svæðinu eru endalausir möguleikar og er það upplagt bæði fyrir byrjendur og lengra komna, hvort sem fólk er á svigskíðum, telemark, snjóbretti eða gönguskíðum.

Uppbyggingin heldur hægt og rólega áfram á skíðasvæðinu, á síðustu árum er búið að byggja skemmuna, koma barnatöfrateppinu upp og nýlega er búið að leggja slitlag á veginn uppeftir. Það verður gaman að fylgjast með skíðasvæðinu í framtíðinni og er tilhlökkunin alltaf jafn mikil, ár hvert, að komast í fjallið.

 

Ég skora á Ingu Birnu Friðjónsdóttur að skrifa næsta pistil

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir