Mismunun á sér mörg andlit, að fara í sund er bara fyrir suma

Sundlaugin í Varmahlíð
Sundlaugin í Varmahlíð

Nú er FYRSTA ársverkefni Sjálfsbjargar lsh. í fullum gangi, en það ber heitið „Sundlaugar okkar allra“ Sjálfsbjargarfélagar um allt land eru í óðaönn að taka út sundlaugar í sínu nærumhverfi. Verkefninu ber að vekja athygli landsmanna og þeirra sem með almenningsmannvirki hafa að gera, á aðgengi.

Aðgengi að sundlaugum er víða ábótavant, bæði er það svo að aðgengi af bílaplani og að anddyri þarf að vera upphitað, hellulagt og kantsteinalaust en er það sjaldnast og svo þarf hreyfihamlað fólk þ.m.t. fólk í hjólastólum að geta komist frá anddyri og út í sundlaug og jafnvel ofan í hana. Hér í Skagafirði ákváðum Sjálfsbjargarfélagar að taka út tvær sundlaugar sem eru ætlaðar öllum en komust að því að hvorug þeirra þjónar öllum. Hvorki í sundlauginni í Varmahlíð né sundlauginni á Hofsósi er gert ráð fyrir að manneskja í hjólastól mæti ein síns liðs í sund, og þó hún mætti með aðstoðarmanneskju sér til aðstoðar þá er ekki gert ráð fyrir að hún komist ofan í sundlaugina þar sem engar lyftur eru til staðar. Það er sorgleg staðreynd að hvorug laugin skuli hafa verið hönnuð og útbúin þannig að hún þjónaði öllum. Þessar sundlaugar eru nýlegar og er t.d. sundlaugin í Hofsósi aðeins sjö ára gömul og þrátt fyrir að til séu ýtarlegar reglur um hvernig aðgengi skuli háttað í opinberum byggingum sem ætlaðar eru öllum þá ákváðu arkitektar sundlaugarinnar algjörlega að horfa fram hjá því. Sömu sögu er að segja um sundlaugina í Varmahlíð, ekki tókst að gera hana aðgengilega öllum, þó hún ætti að þjóna t.d. hreyfihömluðum nemendum skólans.

Ég veit ekki hvað það er í þjóðarsálinni sem gerir það að verkum að arkitektar og þeir sem koma að svona byggingum, já og allskonar öðrum byggingum, virðast loka augunum og fáta út í myrkrið, þar sem ætlast er til að sé algild hönnun, aðgengileg og fyrir alla. A.m.k. virðast þeir sem hengja upp spegla inn á salernum fyrir fatlaða oftar en ekki skrúfa þá upp með lokuð augun því sjaldnast eru þeir í hæð fyrir sitjandi manneskju svo dæmi sé tekið.

Verið er að endurhanna og endurbyggja sundlaugina á Sauðárkróki, við Sjálfbjargarfélagar væntum þess að þar sinni arkitektar og þeir sem að byggingunni koma, vinnu sinni með opin augun. Að þar verði fagleg vinnubrögð viðhöfð og náið samráð við það fagfólk sem þekkir og veit hvað algild hönnun þýðir, það væri nefnilega ekki bara dapurlegt heldur einnig mjög kostnaðarsamt ef kæmi í ljós að sundlaugin væri ekki aðgengileg öllum, eftir andlitslyftingu. 

Ég hvet forráðamenn þessara bygginga í Skagafirði til að setja aðgengi í sundlaugum helstu þéttbýliskjarna fjarðarins á oddinn.

Sveitarfélaginu væri sómi að því að geta kynnt sundlaugarnar sem sundlaugar fyrir alla. 

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir