Öflug grunnþjónusta fyrir fjölskyldufólk í Skagafirði

Í sveitarfélaginu okkar, Skagafirði, hefur ríkt óviðunandi ástand undanfarin ár í dagvistunar- og leikskólamálum og staðan einfaldlega verið sú að foreldrar koma börnum sínum ekki að vegna plássleysis og manneklu. Vandamálið nær allt niður í störf dagforeldra sem hefur reynst erfitt að manna og upp á leikskólastig þar sem börn komast jafnvel ekki að fyrr en um rúmlega 2 ára aldur.

Foreldrar eru uggandi yfir stöðu mála og ástandið reynist fráhrindandi þegar litið er til þess að unga fólkið okkar vill ekki flytja aftur heim að loknu námi þar sem grunnþjónustan, líkt og dagvistunar- og leikskólamál eru ekki í lagi. Vandamálið er ríkjandi í þéttbýliskjörnum Skagafjarðar. Á Sauðárkróki fjölgaði dagforeldrum nýlega í sveitarfélaginu sem hafa leyst vandann upp á síðkastið en það er ekki lausn til framtíðar. Til bráðabirgða var endurnýjað húsnæði í Varmahlíð til að leysa vandann en það er heldur ekki lausn til framtíðar. Unnið er að lausn á Hofsósi þar sem nú liggja fyrir drög að teikningu á viðbyggingu leikskóla við grunnskólann en það leysir ekki vandann til fulls því einnig þarf að ráðast í endurbætur á húsnæði grunnskólans í kjölfarið.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins vilja að aðstaða nemenda og starfsfólks sé viðunandi og sambærileg innan sveitarfélagsins. Það er ljóst að taka þarf á mörgu á komandi kjörtímabili og viljum við vinna í samstarfi við íbúa Skagafjarðar að uppbyggingu og endurbótum á dagvistunar-, leikskóla- og grunnskólamálum. Grunnþjónusta þarf nefnilega að vera í lagi svo fjölskyldufólkið okkar haldi hér kyrru fyrir og svo ungt fólk sjái hag sinn í því að flytja aftur heim. Meðal brýnna stefnumála Sjálfstæðisflokksins eru að fjölga dagvistunar- og leikskólaplássum í Skagafirði og fara í endurbætur á grunnskólunum á Hofsósi og í Varmahlíð.

Miðað við stöðuna í sveitarfélaginu okkar og víða um land eru störf dagforeldra ekki eftirsótt og væri því fremur framtíðarlausn að stefna á uppbyggingu ungbarnaleikskóla. Framtíðarlausn að okkar mati væri því viðbygging við húsnæði yngra stigs Ársala á Sauðárkróki. Varðandi leikskóla- og grunnskólamál í Varmahlíð viljum við vinna að framtíðarlausnum í samstarfi við íbúa varðandi staðsetningu leikskóla og fara í endurbætur á húsnæði grunnskólans. Á Hofsósi er markmiðið að ljúka uppbyggingu á leik- og grunnskóla í samráði við íbúa. Þetta er stefna Sjálfstæðisflokksins, að dagvistunar-, leikskóla-, og grunnskólamál verði sett í forgang og munum við framkvæmda þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að ná því markmiði.

 

Regína Valdimarsdóttir og Elín Árdís Björnsdóttir

Höfundar skipa 2. og 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir