Skólasamfélagið Skagafjörður

Sveitarfélagið Skagafjörður ber heitið skólasamfélag með rentu því það er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem státar af því að hafa öll skólastigin innan sinna marka, frá leikskóla og upp í háskóla. Auk hefðbundinna skólastiga starfar hér einnig öflugur Farskóli – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, sem veitir íbúum aðgang að námskeiðum af ýmsu tagi en er einnig miðstöð fólks sem stundar háskólanám í fjarnámi. Við erum stolt af því að kalla okkur skólasamfélag því fátt er dýrmætara hverjum einstaklingi en það að þroska hæfileika sína með menntun við hæfi.

Allt frá því að efnahagskreppan dundi á íslenskri þjóð á árunum 2008-2011 hefur Sveitarfélagið Skagafjörður haft velferð barna og fjölskyldna þeirra í fyrirrúmi. Þá strax var tekin sú ákvörðun að láta efnahagserfiðleikana ekki koma niður á þjónustu við okkar viðkvæmustu íbúa og svo hefur verið allar götur síðan – börnin okkar hafa verið í öndvegi og þannig viljum við hafa það.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að sveitarfélagið hafi á að skipa breiðum hópi sérfræðinga sem starfa saman, þvert á stofnanir og málaflokka, að því að bæta líf barna, ungmenna og annarra viðkvæmra hópa í samfélaginu. Þótt á stundum sé erfitt að fá fagfólk á sviði velferðarmála til að setjast hér að og starfa með okkur í öflugum sérfræðiteymum, hefur okkur engu að síður tekist að halda uppi þjónustu sem jafna má við það sem best gerist á landinu. Við viljum bæta enn um betur og nú er verið að auglýsa eftir fleira fagfólki til starfa með okkur. Við bindum miklar vonir við að okkur takist að fjölga fagmenntuðu fólki til að veita íbúum okkar þá bestu velferðarþjónustu sem völ er á.

Tryggja þarf leikskólarými fyrir yngstu börnin

Lögð hefur verið mikil áhersla á að veita greiðan aðgang að leikskólarýmum fyrir börn niður í eins árs gömul. Alltaf má þó betur gera. Mikilvægt er að koma enn frekar til móts við foreldra ungra barna, byggja nýja ungbarnadeild við leikskólann á Sauðárkróki og bregðast þannig við löngum biðlista eftir leikskólarými. Þegar ljóst var að ungum börnum væri að fjölga og að sveitarfélagið gæti ekki annað þörf fyrir leikskólarými fyrir yngstu börnin var brugðið á það ráð að bjóða fram foreldragreiðslur til þeirra foreldra sem ekki gátu fengið viðeigandi vistun fyrir börn sín, hvorki hjá dagforeldrum né í leikskóla. Sveitarfélagið Skagafjörður er eitt fárra sveitarfélaga á landinu sem þetta gera. Það breytir þó ekki því að mikilvægt er að hraða byggingu nýrrar deildar við leikskólann Ársali. Þar til ný deild rís þarf að finna fleiri lausnir til að koma til móts við foreldra yngstu barnanna og ég mun beita mér fyrir því. Minna má á að þegar slíkur biðlisti var uppi á teningnum í framsveit Skagafjarðar var brugðið á það ráð að opna nýja deild í gamla pósthúsinu í Varmahlíð sem hýsir nú ungbarnadeild við leikskólann Birkilund.

Uppbygging framundan við leik- og grunnskóla á Hofsósi og í Varmahlíð

Það er líka afar ánægjulegt að verið er að leggja lokahönd á teikningar við endurbætur og nýbyggingu leik- og grunnskólans austan Vatna á Hofsósi. Öll getum við verið sammála um að tímabært sé að færa húsnæði grunnskólans á Hofsósi til nútímahorfs og breyta honum þannig að hann þjóni betur þörfum nútíma skólahalds. Mikilvægur þáttur í þeirri endurbyggingu er ný viðbygging við skólann sem mun hýsa leikskólann. Það er einkar ánægjulegt að horfa til þeirrar samþættingar og eflingar skólastarfs á báðum skólastigum sem slík bygging býður upp á. Vonir standa til að hægt verði að bjóða þessar byggingar út á þessu ári.

Öllum er ljóst að ekki er hægt að gera alla hluti í einu en jafnljóst hlýtur að vera að huga þarf að samskonar framkvæmdum í leik- og grunnskóla í Varmahlíð og taka ákvörðun um hvernig skólahaldi þar verði háttað til framtíðar. Það er mín skoðun að mikilvægt sé að skapa samfellu í námi barna í leik- og grunnskóla og að unnið verði náið með íbúum og starfsmönnum að niðurstöðu.

Endurbætur á og við húsnæði Árskóla

Mikið hefur verið lagt í uppbyggingu Árskóla á síðustu árum, nú síðast var svo kölluð C-álma byggð við skólann, eða Þekjan, eins og hún er í daglegu tali kölluð. Um leið var Árvist (heilsdagsskóli) færð inn í skólann, stjórnendarými og matsalur stækkaður þannig að nú er hægt að bjóða öllum nemendum upp á hádegisverði í skólanum líkt og í öðrum skólum í sveitarfélaginu, auk þess sem vinnuaðstaða starfsfólks er orðin til fyrirmyndar.

Haustið 2016 var svo tónlistarnámið á Sauðárkróki flutt í Árskóla og með því sú þjónusta að bjóða börnum upp á ódýrt og gott tónlistarnám á skólatíma eins og í öðrum skólahverfum Skagafjarðar. Þess má jafnframt geta að í sumar verður bílastæði við Árskóla malbikað.

Við viljum halda áfram á braut uppbyggingar og framfara

Eins og hér að framan segir hefur margt verið gert til bóta í skólasamfélaginu Skagafirði en verkefnalistinn mun þó aldrei tæmast. Nýjar þarfir í samfélaginu, ný viðhorf og breytingar á lífsaðstæðum fólks kalla á að pólitískir leiðtogar hafi sýn til framtíðar, séu meðvitaðir um þarfir íbúa og óskir á hverjum tíma og hafi vilja til að vinna með fólki að jákvæðum breytingum og framförum.

Framsóknarflokkurinn hefur verið leiðandi afl í sveitarfélaginu lengst af tilveru þess. Þegar framkvæmdir og framfarir eru skoðaðar á þeim tuttugu árum sem liðin eru frá sameiningu ellefu sveitarfélaga í Skagafirði er ljóst að Framsóknarflokknum er treystandi til að halda áfram uppbyggingu í héraðinu, halda áfram að stuðla að framförum í atvinnulífi og þjónustu við íbúana. Ég er stolt af að tilheyra þeim hópi sem tilbúinn er til að berjast áfram fyrir bættum hagi allra íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Höfundur er Ingibjörg Huld Þórðardóttir, talmeinafræðingur hjá Sveitarfélaginu Skagafirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir