Skorast ekki undan ábyrgð

Áskorandinn Hallbjörn R. Hallbjörnsson brottfluttur Húnvetningur

Takk Sesselja, hvað gerir maður ekki fyrir Húnvetninga, s.s. þá skoraði Sesselja Guðmundsdóttir á mig að fylgja í kjölfar sitt með því að skrifa um mig sem brottfluttan Húnvetning og skorast ég ekki undan þeirri ábyrgð.

Þeir sem ekki vita hver ég er þá eru foreldrar mínir Guðrún Elsa (Gurra) frá Dýrafirði og Hallbjörn R. (Bibbi í Reynir) frá Blönduósi og eldri systkini Kristján Þór, Margrét og Magnús Bergmann. Ég er langyngstur eða 11 árum yngri en Maggi bróðir, ég segi að ég sé slysið en ekki segja pabba það.

Ég flutti frá Blönduósi með henni Birnu minni til að mennta mig fyrir rúmlega 20 árum síðan, að vísu kom Birna sérstaklega til að ná í mig á Blönduós. Hún er úr Mosfellsbænum og hafði heyrt frá vinkonum sínum að Húnvetningar séu sérlega góðir til undaneldis. Henni leið að vísu mjög vel á Blönduósi þann tíma sem við bjuggum þar og kynntist mörgum.

Ég fór í þá nefndan Tækniskóla (HR í dag) og kláraði stúdentinn svo tók ég pásu í rúm tíu ár áður en við fluttumst með börnin okkar þrjú; Tómas Aron, Helga Hrafn og Katrínu Láru, til Álaborgar í Danmörku. Þar lagði ég stund á Vega- og umferðarverkfræði. Þegar ég var búinn með námið var okkar elsta barn, Tómas Aron að klára grunnskóla og þá var bara tvennt í stöðunni að flytjast heim á Frón eða búa áfram í Danmörku. Danmörk er frábært land en það er ekki Ísland. Það er hálf undarlegt að segja þetta því við fluttum árið 2006 til DK og vorum í tæp sex ár s.s. yfir hrunið. Það var mjög skrýtið að vera í Danmörku fyrir og eftir hrun, Danir virtust aldrei hafa trú á þessum uppgangi fyrir hrun og höfðu svo rétt fyrir sér. Enda upplifðum við margt varðandi fjármál sem Danir gera betur en við Íslendingar.

Þegar ég kláraði námið fékk ég strax vinnu á Almennu Verkfræðistofunni, seinna Verkís. Þar sem stutt var frá hruni var ekkert að gerast í vegagerð eða umferðartækni á Íslandi og Almenna að hasla sér völl í Noregi. Ég var því útleigður til verkfræðistofu í Noregi. Aftur fékk ég að kynnast því að aðrir gera hlutina að mörgu leiti betur en við Íslendingar. Vegagerð og umferðartækni í Skandinavíu er á allt öðru plani en hjá okkur Íslendingum. Það er margt sem við getum lært af frændum okkar.

Við fluttum s.s. til Íslands aftur og það var árið 2012, síðan þá hef ég verið mikið að vinna í norskum verkefnum. En undanfarið ár þá er að verða breyting og fleiri íslensk verkefni að fara í gang, tengt vegagerð og umferðartækni.

Það að vera Húnvetningur í gegnum allt þetta ferli hefur svo sem ekki breytt neinu, en ég hugsa oft á heimaslóðir og segi stoltur frá því að ég sé Húnvetningur. Að  hafa búið og starfað erlendis sér maður hvað gott er að víkka sjóndeildarhringinn. Það er bæði hollt og gott að prófa að vera útlendingur.

Hallbjörn skorar á Ágúst Guðbjörn Valsson að koma með pistil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir