Sorry, Guðmundur Hagalín!

Ég þakka Hallbirni fyrir að skora á mig og ég tek þeirri áskorun fagnandi. En, jú það er rétt, ég er brottfluttur Húnvetningur, fæddur á Blönduósi 21. apríl 1971, einn af þremur sem fæddust þennan dag. Handritin komu einnig til Íslands frá Danmörku þennan dag. Sagan segir að ráðsmaðurinn á sjúkrahúsinu á Blönduósi hafi flaggað íslenska fánanum þennan dag. Hjúkkurnar spurðu ráðsmanninn af hverju hann væri að flagga. “Nú, strákurinn”, en ráðsmaðurinn var pabbi minn.

Ég er sonur Kristínar Ágústsdóttur, kölluð Stína á pósthúsinu, og Vals Snorrasonar (ráðsmaðurinn) en hann lést árið 1994 eftir nokkra ára veikindi. Ég á þrjú systkini, tvær eldri systur og einn yngri bróðir.

Eftir grunnskólann fór ég til Exter á Englandi til að læra ensku í fjóra mánuði, og í framhaldi af því flutti ég á Selfoss og hóf nám við Fjölbrautaskólann þar í bæ. Í grunnskóla var ég spurður að því hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór, “rafvirkri eins og pabbi minn”. Á Selfossi byrjaði það, grunndeild rafiðna og svo beint í Iðnskólann í Reykjavík. Ég kláraði meiraprófið 1994 og fór að keyra rútur á sumrin. Eftir fjögur sumur, ellefu hringferðir með tjaldhópa á hálendi Íslands var ég  heillaður af ferðaþjónustunni. Ég starfaði hjá Orkuvirki þegar Blönduvirkjun var í uppbyggingu. Þar voru frábærir fagmenn á sínu sviði, þar á meðal starfsmenn Landsvirkjunar. Guðmundur Hagalín stöðvarstjóri var einn þeirra. Hann sagði mér að fara til Álaborgar og læra verkfræði. Viti menn, ég hlýddi manninum.

Í Tækniskólanum árið 1996 lauk ég tæknistúdent og eftir það  flutti ég til Álaborgar og hóf nám í verkfærði. Ég kláraði fyrsta árið en tók smá U-beygju í náminu. Ég var á labbi í miðborg Álaborgar og sá þar skrifstofu sem var með allar upplýsingar um nám í Danmörku. Ég labbaði þar inn og spurði „ertu með eitthvað sem tengist ferðaþjónustu”  ég fór í það nám árið 1999.  Sorry Guðmundur Hagalín! Ferðamálafræðin var í Danmörku og Englandi og var byggð þannig upp að skólinn var fyrstu sex mánuðina í Englandi, vinna í sex mánuði, og svo 2x 6 mánuðir í Danmörku. Eftir ferðamálafræðina í byrjun árs 2002 fór ég í ellefu vikna  ferðlag,  Singapur, Ástralíu, Nýja Sjálands og Fiji. Það þarf annan þátt í þá sögu.

Janúar 2005 fór ég í Háskólann á Akureyri og kláraði þar Bs viðskiptafræði með áherslu á markaðs- og ferðaþjónustu. Ég hef starfað í skemmtilegum störfum í ferðaþjónustunni, markaðsstjóri, hótelstjóri, verkefnastjóri, keyrt ferðamenn á breyttum jeppa á hálendi Íslands og margt fleira. Í dag bý ég í Hafnarfirði, giftur Ölmu Jónsdóttur fjármálastjóra, við eigum þrjá stráka, Áka Val 9 ára, Andra Jón 7 ára og Ágúst Daða 4 ára. Ég hef starfað hjá Fasteignasölunni Bæ í fimm og hálf ár og stunda nám í löggildingu til fasteignasala sem lýkur í desember 2017. Ég er stoltur að vera Húnvetningur og hafa fengið frábært uppeldi á Blönduósi. Það er alltaf gaman að koma heim, en mamma á jörð í Vatnsdalnum þar sem fjölskyldan hittist alltaf reglulega og njótum þess að vera saman.

Ég skora á Ómar Árnason að koma með pistil.

Áður birst í 14. tbl. Feykis

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir