Staðurinn minn

Ég stend í gömlum sporum á Nafabrúninni fyrir ofan Sauðárkrók sunnan Kirkjuklaufar, skyggnist um, kann samt utan að það sem ég sé. Þekki það ekki síður en línurnar í lófum mínum [...] Skagafjörður skín við augum. Og mér finnst snöggvast eins og oft fyrr að allar hurðir hafi fallið að stöfum fyrir aftan mig og ekkert landslag sé til umfram þennan víða og háa sal, opinn norðan megin út til Hafsbotna.
(Hannes Pétursson, 2011, bls. 9)

Þannig kemst skáldið og Skagfirðingurinn Hannes Pétursson að orði í upphafi bókar sinnar Jarðlag í tímanum. Minningamyndir úr barnæsku. Líkt og titill bókarinnar bendir til, bregður Hannes upp myndum sem standa ljóslifandi fyrir augum þegar texti hans er lesinn og á fyrstu síðum bókarinnar nær hann að lýsa með einstaklega skýrum hætti hversu náið fólk getur tengst stað, í þessu tilviki æskuslóðum.

Ég hef búið nokkuð víða það sem af er ævinnar og ferðast talsvert. Í mínum huga er það að tengjast stað afstætt hugtak sem á sér margar birtingamyndir. Þó ég gæti aldrei komist nálægt því að lýsa með jafn skýrum hætti og Hannes tengslum mínum við æskuslóðirnar, þá hefur Stekkjarmórinn, Torfhóllinn, Varpinn og Kerlingin, allt örnefni í landslagi þar sem ég sleit barnsskónum, sérstakan sess í mínum huga. Ég get farið þangað í anda, fundið fyrir mosanum á grjótinu í fingurgómunum, fundið lyktina af vallhumli og smára, og séð fyrir mér gömlu heyvinnuvélarnar sem stóðu fyrir neðan Stekkjamó og löngu er búið að fjarlægja. Þá er ég komin á þann stað sem ég kann utanað eins og Hannes, þar sem hann stendur á Nafabrúninni. Hannes lýsir einnig kynnum sínum og þekkingu á „fólki þar og sveitarháttum“, hvernig landslag og mannlíf renna saman í „minningarmyndir“ sem við köllum fram í huganum þegar við viljum ferðast aftur í tímann til þess staðar sem við þekkjum svo vel – æskustöðvanna.

En staðir geta markað spor í hugum fólks, jafnvel þó einungis sé stígið þar niður fæti sem snöggvast. Við getum orðið fyrir slíkum hughrifum af landslagi, atburðum og fólki sem við hittum eða heyrum af, að ókunnugir staðir taka sér bólfestu í huganum. Við köllum fram minningamyndir þaðan þegar minnst varir – förum á þann stað í anda. Í þessu tilliti er staðurinn hreyfanlegur bæði í tíma og rúmi. Hann getur einnig verið breytilegur eftir því í hvaða samhengi hann er skoðaður og af hverjum. Um slíka lífsreynslu má lesa í skáldskap og sjá í kvikmyndum, og flest höfum við líka upplifað eitthvað í þessa veru. Andstætt æskustöðvunum gefa ókunnir staðir færi á að við gefum ímyndunaraflinu lausan tauminn. Við erum ekki bundin þekkingu og reynslu af staðnum, sem hefur áhrif á það hvernig við sjáum hann – þó reynsla og þekking hafi vissulega áhrif á það sem við heyrum, sjáum og finnum. Við erum aldrei hlutlaus í upplifun okkar, því í öllu mannlegu atferli er fólgin vitneskja sem mótast með tímanum og hefur áhrif á alla túlkun okkar á veruleikanum. Að hafa „frelsi“ til þess að upplifa stað á eigin forsendum, óháð vitneskju um „fólk þar og sveitarhætti“ er þó sennilega jafn mikils virði og djúp tengsl við æskusporin. Hvorutveggja eykur lífsgæði og er mikilvægt byggingarefni í sjálfsmynd okkar.

„Skagafjörður er besti staður í heimi, Varmahlíð er besti staður í Skagafirði og Furulundur er besti staður í Varmahlíð“ sagði sá mikli höfðingi Sigurpáll Árnason við okkur manninn minn þegar við keyptum af honum íbúðarhús í Furulundi – og hafði þar nokkuð til síns máls. Nú hef ég búið í Skagafirði í jafn mörg ár og á æskustöðvunum, og mun lengur en annars staðar á Íslandi eða erlendis. Ég er farin að standa mig að því að hugsa stundum eins og Skagfirðingur, gera góðlátlegt grín að Eyfirðingum þegar þannig ber undir og upplifa þá tilfinningu að tilheyra staðnum. Bæði Eyjafjörður og Skagafjörður bera nú gælunafnið „Fjörðurinn fagri“ og er það nafn notað eftir því sem við á. Ég á með öðrum orðum, orðið erfitt með að gera upp á milli. Eða hvað? Þó í mér sé flökkugen og ég telji mig geta aðlagast þeim stað sem ég er á hverju sinni og gert hann að mínu heimili, þá er það engum vafa undirorpið að Skagafjörður er besti staður í heimi, Varmahlíð besti staður í Skagafirði og Furulundur besti staður í Varmahlíð. Það er staðurinn minn.

Ég skora á Margréti Óladóttur á Flugumýri að grípa áskorendapennann.

Áður birst í 34. tbl. feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir