Stefán Vagn verður uppvís af ósannindum og blekkingum

Hrafn Margeirsson á hjólinu í heimildamyndinni Línudans.
Hrafn Margeirsson á hjólinu í heimildamyndinni Línudans.

Í viðtali við Stefán Vagn formann byggðaráðs í Feyki um Blöndulínu 3, er haft eftir honum að línan muni "tengjast tengivirki í Varmahlíð sem tengist svo áfram m.a. í jarðstreng út á Sauðárkrók og þar með verður komið mun meira raforkuöryggi á svæðið". Þetta er einfaldlega rangt þar sem Blöndulína 3 mun liggja í að minnsta kosti 3 km fjarlægð frá umræddu tengiviki og tengist Skagafirði því ekki. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd úr umhverfismati línunnar. Það er einnig rangt að halda því fram að sveitarfélagi beri að greiða umframkostnað ef það setur þá stefnu að línuna skuli leggja í jörð. Hvaðan kemur þessi fróðleikur?

Blöndulína 3 er ekki byggðalína heldur sértækt stóriðjumannvirki sem er ætlað að tengja saman stórvirkjanir og álbræðsluverksmiðjur í eigu erlendra auðhringja, sem ekki svo mikið sem greiða skatt til þjóðarinnar. Eftir hálfrar aldar viðstöðulausa uppbyggingu á stórvirkjunum og stóriðju er búið að sökkva hundruðum ferkílómetra af hálendinu undir jökulleir, grafa og sprengja tugi kílómetra af áveituskurðum og göngum, reisa tugi stífla og síðast en ekki síst reisa hundruði kílómetra af risavöxnum stóriðjulínum sem skera í augu í náttúru Íslands. Fyrir vikið er losun gróðurhúsalofttegunda á íbúa með því mesta sem gerist í heiminum og stefnir enn upp á við. Árangurinn af öllu þessu brölti eru tæplega 1900 störf, sem nær ekki einu prósenti af starfandi fólki í landinu. Hin rúmlega 99% gera  það sem stundum hefur verið kallað "eitthvað annað". Þessar stóriðjur nota hins vegar um 85% af allri raforku sem framleidd er og stefnir sú tala einnig upp á við.

Kort úr kortahefti matsskýrslu Blöndulínu 3 og sýnir að Blöndulína 3 tengist ekki tengivirkinu í Varmahlíð.Nú hefur stóriðjustefnunni verið siglt í strand  og nær daglega berast fréttir af mengun og veikindum henni tengdri á Suðurnesjum þar sem kísilverið stendur með sínar ólöglegu byggingar, rétt við steypuminjar frá fyrirhugaðri álbræðsluverksmiðju, sem aldrei verður og hefði betur aldrei komist á blað.  Hvað dettur sveitarstjórn Skagafjarðar þá helst í hug? Jú, kínverska álbræðsluverksmiðju við Skagaströnd! Eru menn endanlega gengnir af göflunum? Til þess að knýja þessa bræðslu er stefna sveitarfélagsins að virkja jökulsárnar í Skagafirði sem eru óhagkvæmustu virkjanir sem hægt er að fara í, samkvæmt úttekt verkefnastjórnar rammaáætlunar, bæði út frá kostnaði og ekki síst vegna gríðarlegra umhverfisáhrifa. Þessi stefna sveitarfélagsins er staðfest í nýlegri auglýsingu fyrir aðalskipulag Skagafjarðar. Getur verið að áhugi sveitarfélagsins á því að setja Blöndulínu 3 inn á skipulag núna tengist þessum virkjanadraumum sem aldrei verða.  Virkjanadraumum sem eru samofnir hagsmunum Kaupfélags Skagfirðinga sem búið er að leggja hundruði milljóna í þessa fráleitu virkjanakosti. Hagsmuni hverra er verið að gæta? Augljóslega ekki íbúa Skagafjarðar.

Ég hvet alla lesendur Feykis til að horfa á hina stórgóðu heimildamynd Ólafs Rögnvaldssonar Línudans sem sýnd var í sjónvarpinu mánudaginn 1. maí og verður endursýnd á sunnudaginn kemur klukkan 13:05. Þar er sögð saga af lygum og hræðsluáróðri og hvernig fólk getur með samtakamætti sínum staðið gegn áformum af þessu tagi. Myndin var sýnd í Sauðárkróksbíói laugardaginn fyrir páska og var prýðilega auglýst. Ekki einn einasti  sveitarstjórnarmaður lét sjá sig á sýningunni en sást þó til Stefáns Vagns við húshornið, bæði fyrir og eftir sýningu, og má því segja að myndin hafi verið sýnd undir vökulu auga lögreglunnar. Tilviljun? Svari nú hver fyrir sig. Ég trúi ekki á tilviljanir.

Hrafn Margeirsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir