Stórt skref til framtíðar

Elsa Lára Arnardóttir
Elsa Lára Arnardóttir

Uppbygging á 2300 leiguíbúðum er rétt handan við hornið en önnur umræða um frumvarp um almennar félagsíbúðir fór fram á Alþingi í vikunni. Þessi mikilvæga uppbygging er því rétt handan við hornið. Þetta er ein sú mesta uppbygging sem verið hefur á leigumarkaði frá árinu 1965 eða þegar Breiðholtið var byggt. Nú er tekið stórt skref til framtíðar með gríðarlegri uppbyggingu og stöðugleika á leigumarkaði. Hér er um að ræða uppbyggingu á kerfi þar sem stuðlað er að félagslegri blöndun íbúanna.

Uppbygging og stöðugleiki

Þessar íbúðir eru ætlaðar einstaklingum og fjölskyldum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum og þurfa því að uppfylla þau skilyrði þegar flutt er inn í kerfið. Markmið aðgerðanna er að leiguverð fari ekki yfir 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum. Hins vegar er það svo að ef að tekjur hækka þá er borgað hóflegt álag á leiguna. Það er gert svo hægt sé að búa áfram í húsnæðinu og búa áfram við stöðugleika þrátt fyrir ögn hærri tekjur. En það er afar mikilvægt fyrir alla að hafa öruggt þak yfir höfuðið.

Markmiðið að lækka leiguverð

Uppbygging þessa leigukerfis er að stofnuð verða leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Þar veitir ríkið 18 % stofnframlag, sveitarfélögin 12 % og 70 % eru fjármögnuð í gegnum lánakerfið með lánum til allt að 50 ára. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að lækka leigugreiðslur frá núverandi kerfi sem byggist upp á 90 % lánum og vaxtaniðurgreiðslu. Ríkið hefur þó heimild til að veita 4 % viðbótarstofnframlag til leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða til íbúðarhúsnæðis sem er ætlað námsmönnum eða öryrkjum. Þessi heimild er sett inn til að ná markmiði laganna um að leiguverð fari ekki yfir 20 – 25 % af ráðstöfunartekjum.

Litið til byggðarsjónarmiða

Heimilt er að líta til byggðarsjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Það gæti t.d. átt við ef skortur á leigu­húsnæði stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlagi fyrir þrifum.  Einnig er heimild til viðbótarstofnframlags, 6 % frá ríki og 4 % frá sveitarfélögum vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leigu­húsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á al­mennum markaði. Auk þessa er heimilt fyrir sveitarfélög til að byggja upp leigufélög í samstarfi við aðra, t.d. fyrirtæki.

Viltu vera með?

Það er Íbúðarlánasjóður sem mun halda utan um stofnframlög ríkisins og meta umsóknir. Ég hvet sveitarfélög um land allt að kynna sér málið, fá upplýsingar og meta hvort þörf er á og eða áhugi á að taka þátt. 

Elsa Lára Arnardóttir

- þingmaður Framsóknarflokksins og framsögumaður málsins.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir