Sýndarveruleiki minnihluta sveitarstjórnar

Húsin við Aðalgötu sem hýsa eiga Sýndarveruleikasýninguna. Mynd:FE
Húsin við Aðalgötu sem hýsa eiga Sýndarveruleikasýninguna. Mynd:FE

Í ljósi umræðna og bókana fulltrúa minnihlutans í sveitarstjórn vill meirihluti sveitarstjórnar leiðrétta þær rangfærslur sem komið hafa fram í málflutningi þeirra. Mikilvægt er að rétt sé farið með staðreyndir.

Hugmyndir um sýndarveruleikasýningu í Skagafirði komu fyrst upp af hálfu forsvarsmanna hennar seinni hluta árs 2016 og var jákvætt tekið í að skoða þessar hugmyndir um að efla enn frekar ferðamennsku og aðdráttarafl Skagafjarðar fyrir þann hóp og aðra gesti sem heimsækja héraðið, eins og önnur áform sem lúta að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu vítt og breytt um héraðið. 
Var óformlega rætt um málið á fundum byggðarráðs í kjölfarið og ákváðu aðalmenn í byggðarráði Sveitarfélagsins Skagafjarðar ásamt öðrum sveitarstjórnarfulltrúum m.a. að kynna sér um hvað sýndarveruleiki (Virtual Reality) snerist í Háskólanum í Reykjavík í tengslum við fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í lok september það ár. Í þá heimsókn fóru allir aðalmenn í byggðarráði utan fulltrúa K-lista sem komst ekki með en var meðvitaður um heimsóknina og málið á þeim tíma. 

Síðan þetta gerðist hefur oftsinnis verið rætt um málið í byggðarráði, atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd og í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar, bæði óformlega og formlega, með bókunum í trúnaðarbók og einnig á seinni stigum með opnum bókunum.
Þannig var formlega rætt um málið og framkvæmdir því tengdar á 6 fundum atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar og byggðarráðs á árunum 2017-2018 og þær fundargerðir staðfestar í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar mótatkvæðalaust og með öllum greiddum atkvæðum.
Var m.a. rætt um málið á fundi byggðarráðs 21. desember 2017 þar sem undir þeim dagskrárlið voru einnig viðstaddir allir aðrir aðalmenn í sveitarstjórn utan eins fulltrúa frá meirihluta, sem og allir aðalmenn og áheyrnarfulltrúi í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd. Var þar bókað: „Til fundarins kom Ingvi Jökull Logason og kynnti áform um atvinnuuppbyggingu í húsnæði sveitarfélagins að Aðalgötu 21. Byggðarráð samþykkir að halda áfram viðræðum við Ingva Jökul og verja allt að 2,5 m.kr. af þeim 80 m.kr. sem tilgreindar eru í fjárhagsáætlun vegna Aðalgötu 21 og 21a, til verkáætlunar innanhúss.“ Var málið þannig komið á það stig á þessum tíma að tekin var ákvörðun með samþykki allra flokka í sveitarstjórn, fulltrúum þeirra í byggðarráði og fulltrúum þeirra í atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd um að ráðast í verkáætlun innanhúss í fyrrgreindum húsum með sýndarveruleikasýningu í huga. Engum duldist á þessum tíma hvað til stóð. 

Þann 20. febrúar sl. var byggðarráð kallað saman til óformlegs fundar til að fara yfir fyrstu drög að samningi við Sýndarveruleika ehf. Á þann fund mættu allir byggðarráðsfulltrúar.
Á byggðarráðsfundi þann 1. mars sl. var rætt utan dagskrár að boðað yrði til aukafundar í byggðarráði daginn eftir þar sem fulltrúar Sýndarveruleika myndu koma til þess að ljúka samningsgerðinni. Um það voru allir byggðarráðsfulltrúar sammála og var boðað til fundar. 

Á fundinum 2. mars sl. voru lögð fram uppfærð drög að samstarfssamningi milli Sýndarveruleika ehf. og Sveitarfélagsins Skagafjarðar um uppbyggingu sýndarveruleikasafns á Sauðárkróki. Undir þessum dagskrárlið sat fundinn ásamt öllum fulltrúum í byggðarráði, Ingvi Jökull Logason fulltrúi Sýndarveruleika ehf. Að loknum þeim fundi þar sem farið var vandlega yfir alla liði samningsins samþykkti byggðarráð framlögð samningsdrög án nokkurra athugasemda.
Það var ekki fyrr en á byggðarráðsfundi þann 8. mars sl. að Bjarni Jónsson áheyrnarfulltrúi VG í byggðarráði fór að bóka á annan máta um málið. Það gerði hann þrátt fyrir að fulltrúar minnihlutans í byggðarráði hafi tekið fullan þátt með fulltrúum meirihlutans í yfirferð og mótun samstarfssamnings við Sýndarveruleika ehf. vikurnar á undan og samþykktu m.a. aðeins viku fyrr samstarfssamninginn án nokkurra athugasemda, enda höfðu fulltrúar minnihlutans tekið fullan og virkan þátt í gerð og breytingum samningsdraganna með fulltrúum meirihlutans.

Það er því holur hljómur í máli fulltrúa minnihlutans í sveitarstjórn í þessu máli og ekki laust við að kosningaskjálfta virðist farið að gæta þar. Er sorglegt að slíkur skjálfti beinist að áformum um verulega fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu á sviði ferðaþjónustu í Skagafirði sem mun hafa mikil og jákvæð áhrif á aðra ferðaþjónustu og stoðþjónustu hennar á svæðinu, enda oft verið rætt um að það vanti aukið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og aðra gesti á svæðið.
Sveitarstjórnarfulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks munu áfram leita leiða til að efla og styrkja samfélagið í Skagafirði með ráðum og dáð. Fjölbreytt atvinna er forsenda búsetu og velferðar íbúanna og eykur um leið margbreytileika í þjónustu og afþreyingu sem styrkir samkeppnishæfni Skagafjarðar og mikilvægt er að efla. Sjaldan eða aldrei hefur verið ráðist í eins mörg uppbyggingarverkefni víða um hérað eins og á þessu kjörtímabili, um leið og gætt hefur verið ábyrgðar í rekstri líkt og fjárhagsáætlanir og rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur borið vitni um á kjörtímabilinu.


Stefán Vagn Stefánsson, Sigríður Svavarsdóttir, Sigríður Magnúsdóttir, Bjarki Tryggvason, Gunnsteinn Björnsson, Sigríður Magnúsdóttir og Þórdís Friðbjörnsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir