Þá stóð sveitarstjórn með heimamönnum en ekki lengur

Ýmsar rangfærslur hafa komið fram í umfjöllun Sveitarfélagsins um Blöndulínu 3 sem þarf að leiðrétta. Í frétt á vef sveitarfélagsins sem einnig var birt á vef Feykis, segir að nú verði að taka ákvörðun um legu línunnar í skipulagi, þar sem skipulagi hennar hafi verið frestað um fjögur ár í síðasta aðalskipulagi og sá tími sé liðinn. Þarna er hlutunum snúið á hvolf.  Það er engin ástæða til að festa línuna inn á skipulag. Blöndulína 3 er ekki lengur á framkvæmdaáætlun Landsnets. Þvert á móti væri skynsamlegt fyrir sveitarfélagið að taka legu Blöndulínu 3 út og marka þá stefnu að línuna skuli leggja í jörð.

Umhverfismatið sem sveitarstjórn vísar í, og telur sig bundið af er ónýtt og Landsnet hefur ákveðið að gera nýtt mat, eins og sveitarfélaginu er fullkunnugt um. Þar verður jarðstrengur tekinn til mats sem raunhæfur valkostur, eins og íbúar, dómstólar og Skipulagsstofnun hafa marg ítrekað bent á að þurfi að gera. Á sama hátt er það tóm della að ætla að setja 12 nýjar námur vegna Blöndulínu 3 inn á aðalskipulag núna, sem ekki hafa verið metnar í umhverfismati og eru fyrir framkvæmd sem enginn veit hvernig eða hvort verður. Hvað þá að setja virkjanir sem eru á leið í verndarflokk, skv. tillögum verkefnisstjórnar rammaáætlunar, inn á skipulag. Þetta með efnistökuna átelur Skipulagsstofnun sérstaklaga í umsögn sinni til sveitarstjórnar Skagafjarðar, sem undirritaður hefur undir höndum. Skipulagsstofnun bendir einnig á að rétt sé að „tillaga að breytingu á aðalskipulagi vegna efnitökuframkvæmda tengdum Blöndulínu 3 verði unnin samhliða málsmeðferð viðkomandi framkvæmda samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.“

Árið 2012 sendi sveitarfélagið Skagafjörður inn eftirfarandi athugasemd við umhverfismat Blöndulínu, sem samþykkt hafði verið einróma:

„Sveitarstjórn áréttar ennfremur að við undirbúning og vinnu að línulögninni sé tekið ríkt tillit til hagsmuna heimamanna og skoðað hvort og þá með hvaða hætti hægt er að koma til móts við kröfur um línulögn í jörð að hluta til.“ „Sveitarstjórn áskilur sér rétt til að setja skilyrði fyrir lagningu Blöndulínu 3 hvað varðar leiðarval og framkvæmdakosti, þar með talið að raflína verði að hluta til lögð í jörð.“

Í dag er öldin önnur. Nú hefur sveitarstjórn ákveðið að engin ástæða sé til að taka tillit til hagsmuna heimamanna, né heldur skoða jarðstreng sem valkost. Nú sér sveitarstjórn ekki lengur neina ástæðu til að setja skilyrði um leiðarval eða framkvæmdakosti fyrir  Blöndulínu 3 heldur ætlar sér að festa í sessi úreltar hugmyndir um legu hennar í aðalskipulag. Þetta er afar sérstakt. Ekki síst vegna þess að sveitarfélagið kemur fram með þessa breytingu á sama tíma og Landsnet hefur tekið Blöndulínu 3 út af framkvæmdaáætlun  og hefur loksins ákveðið að vinna nýtt umhverfismat fyrir línuna þar sem skoðað verður í fullri alvöru að línan verði lögð í jarðstreng, a.m.k. á hluta leiðarinnar. Maður veltir fyrir sér hvers vegna þessi tillaga sveitarstjórnar kemur fram núna, þegar hún er algjörlega á skjön við fyrirætlanir Landsnets.

Það er augljóst að stefna sveitarstjórnar er að koma stóriðjumannvirkinu Blöndulínu 3, efnistökunámum henni tengdri og Skagafjarðarvirkjunum inn á skipulag fyrir næstu kosningar, í samræmi við hagsmuni t.a.m. Kaupfélags Skagfirðinga sem hefur lagt hundruði milljóna í virkjanaundirbúning, hefur keypt og ásælst jarðir á svæðinu. Áform sveitarstjórnar Skagafjarðar um Blöndulínu 3 eru í algjörri andstöðu við stefnu sveitarstjórna í Eyjafirði (enda Eyfirðingar komnir lengra á þróunarbrautinni) sem standa fast með íbúum og umhverfinu og krefjast þess að jarðstrengir séu teknir inn sem valkostur.  Sveitarfélagið verður að taka upp ný vinnubrögð, í takt við nýja tíma, og átta sig á að í dag er ekki í boði að ganga svona fram.

Það væri í anda stefnu núverandi sveitarstjórnar að skipta út merki sveitarfélagsins, sem í dag er biskupsstafur og sverð sem vísar í sögufræga atburði í héraðinu, og taka upp nýtt merki með tilvísun í framtíðarsýn sveitarstjórnar fyrir héraðið. Þess í stað kæmu risavaxnar virkjanir og stóriðjulínur og merkið tæki sér þar til fyrirmyndar skjaldarmerki ónefnds „fyrirmyndarríkis„ á Kóreuskaga. Íbúar yrðu vafalítið kátir!

Nú hefur sveitarstjórn tvo kosti. Annar kosturinn er að vaða fram með áform um línumannvirki, námur og virkjanir  sem standast enga skoðun, en hinn kosturinn er að staldra við, setja ákvarðanir um línur, námur og virkjanir á ís og bíða niðurstöðu úr nýju umhverfismati Blöndulínu 3 sem og niðurstöðu Alþingis um rammaáætlun. Það er engin hætta á að þær skýrslur týnist.

Það er vel við hæfi að enda með magnaðri stöku Jóns Gissurarsonar bónda í Víðimýrarseli úr hinni stórgóðri heimildarmynd Ólafs Rögnvaldssonar Línudans.

Mótmælunum legg ég lið,
línuna smátt ég virði.
Henni allri höfnum við,
heima í Skagafirði

Hrafn Margeirsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir