Þú ert hugrakkari en þú trúir

,,Nei, nei, nei.” Þetta voru orðin sem ég sagði þegar Ómar spurði mig hvort ég vildi ekki taka við pistlakeflinu í Feyki. Hugsanirnar fóru á flug. Hvað hafði ég gert honum? Hvað ætti ég að skrifa um? Í þessari lúxushræðslu minni sló ég þó til, því innst inni langaði mig að taka þessari áskorun. Ég myndi ekkert tapa á því, aðalvandamálið væri að finna sæmilega mynd sem ætti að fylgja með.

Nei er svo auðvelt svar, góð leið út úr óþægilegum aðstæðum. En afhverju segjum við nei við einhverju sem okkur langar til að gera? Öll viljum við þroskast og eflast sem einstaklingar en á sama tíma fara sem minnst út fyrir þægindarammann og þ.a.l. höldum við okkur í sama gamla farinu.

Þú þarft ekki nema örfáar sekúndur af hugrekki til að taka ákvörðun um að gera eitthvað nýtt, eitthvað sem þig hefur alltaf langað til að gera. Það þarf ekki að vera stórt eða fyrir augum annarra, þú gerir þetta fyrir sjálfan þig.

Ég hvet þig til að stíga út fyrir þægindarammann næst þegar tækifæri gefst, breyta út af vananum. Best er að hugsa ekki of mikið um það, ef þú virkilega vilt það, kýldu á það, þú verður reynslunni ríkari fyrir vikið og sérð hvers þú ert megnugur. 
Mig langar að enda þetta á orðum sem við getum öll tekið til okkar: 
,,Þú ert hugrakkari en þú trúir, sterkari en þú virðist og klárari en þú heldur.”
-Bangsímon.

Ég skora á Herdísi Harðardóttur að koma með næsta pistil.

Áður birst í 19. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir