Tryggjum Álfhildi í sveitarstjórn

Álfhildur Leifsdóttir, frá Keldudal skipar nú baráttusæti VÓ (vinstri græn og óháð) í Skagafirði í kosningum til sveitarstjórnar. Það væri mikill fengur að fá Álfhildi í sveitarstjórn, hún hefur góða tilfinningu fyrir því sem mestu máli skiptir um allt héraðið. Sú sköpunargleði og dugnaður sem einkennir störf hennar mun sannarlega nýtast vel.

Álfhildur er sannkallaður nútíma kvenskörungur, vel gefin og menntuð og veigrar sér ekki við að takast á við verkefnin sem fyrir liggja og fylgja þeim eftir, hvort heldur þau snúa að því að fræða kennara landsins um hvernig megi nýta tölvur og forritun til að auka gæði kennslu og glæða enn frekar áhuga nemenda, kenna á unglingastigi Árskóla eða takast á við barnauppeldi þriggja barna sem einstæð móðir.

Álfhildur hefur sýnt þann kraft, þor og þrautseygju sem í henni býr, hún á auðvelt með að láta skoðanir sínar í ljós og er óhrædd við að synda á móti straumnum ef á þarf að halda. Álfhildur hefur góða tilfinningu fyrir því sem mestu máli skiptir, ríka réttlætiskennd og vill vinna af heiðarleika og röggsemi með og fyrir fólkið í firðinum. það væri mikill fengur fyrir Skagfirðinga að njóta hennar krafta í sveitarstjórn Skagafjarðar.

Setjum x við V á laugardaginn kemur og tryggjum Álfhildi Leifsdóttur sæti í sveitarstjórn.

Hildur Þóra Magnúsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir